"Enginn er krati nema hann kunni að betla"

Getur þú bætt hag heimilisins með því að betla styrk frá sjálfum þér? Sá galdur er einmitt hluti af þeirri "lausn" sem íslenskir kratar predika ákaft. Þeir slá ekki hendinn á móti evrum frá Brussel til að fjármagna trúboðið.

Anna Margrét Guðjónsdóttir heitir varaþingmaður krata. Síðustu vikuna áður en hún vék af þingi fyrir hinum seinheppna Björgvini G, var hún á útopnu við að dásama brusselska styrki. 

Í Speglinum á RÚV mælti Anna Margrét með ylrækt á Reykjanesi, að sjálfsögðu með tómatastyrkjum frá Brussel. Nema hvað? Enginn er krati nema hann kunni að betla, eins og segir í alkunnu máltæki.

Á opnum fundi á Kaffi Sólon útskýrði hún hvað það er miklu betra að fá evrópska styrki afgreidda af 344 manna héraðanefnd ESB, heldur en íslensk framlög gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

En svo kom mótsögnin!

Á Útvarpi Sögu, í þættinum "ESB, nei eða já", upplýsti hún að framlög Íslands til Evrópusambandsins yrðu alltaf hærri en það sem við fengjum þaðan (nema kannski fyrsta kortérið). Enda er það reynsla hinna Norðurlandanna. Við borgum sem sagt "styrkina" sjálf.  

Ef kostnaður okkar yrði sá sami og hinna Norðurlandanna er árgjaldið/tapið um 7.400 milljónir nettó, fyrir að fá að vera með í klúbbnum. Samt eru "styrkirnir" æðislegir, af því að við sendum peningana til útlanda fyrst.

Styrkirnir sem koma frá Brussel - en við borgum sjálf.

Áskorun á þingflokk VG

Það er aumt að afla málstaðnum fylgis með því að veifa "styrkjum" framan í kjósendur á krepputímum. Það er hins vegar reisn yfir félögum og stuðningsmönnum VG sem skora á þingflokkinn að fylgja stefnunni og láta af kosningasvikum. Stöðva aðlögunina sem kostuð er með milljarða fjáraustri frá Brussel.

Sérstaklega tek ég undir þessa setningu: "Slíkar greiðslur frá Evrópusambandinu gera að engu þær vonir að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar." Þetta er einmitt málið. Evrurnar frá Brussel munu gera leikinn ójafnan, eins og raunin varð í Svíþjóð, skekkja umfjöllunina og skaða lýðræðislega afgreiðslu.

 


mbl.is Skorað á þingflokk VG að fylgja ESB-stefnu flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband