Hvur er það sem glottir svona?

Mynd segir meira en þúsund orð. Það sannast á einni bestu hrunfréttamynd ársins sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Á myndinni má sjá menn hraða sér frá Dómkirkjunni yfir í þinghúsið, til að fara þar inn bakdyramegin, sem er í sjálfu sér táknrænt. Fremstur gengur biskup og á eftir honum sr. Halldóra með eggjarauðuna vætlandi úr eyranu.

Forsida Mbl

Forsetafrúin er áhyggjufull og Jóhanna grúfir höfuðið í hendur sér. Í baksýn er æstur almúginn, lögreglan er á staðnum og þrúgað andrúmsloftið leynir sér ekki. Hægra megin á myndinni má sjá þrjá ráðherra og áhyggjusvipurinn í andliti þeirra leynir sér ekki.

En það er einn sem sker sig úr.

Forsida Mbl OssurUtanríkisráðherrann, Össur Skarphéðinsson, er á miðri mynd. Hann röltir áhyggjulaus, kæruleysislegur með hendur í vasa og glottir! Það er eins og hann tilheyri allt öðrum veruleika en allir hinir á myndinni.

Staksteinar dagsins (sem tengjast myndinni ekki) voru óþarfir. Undir fyrirsögninni "Á skjön við veruleikann" er fjallað um Össur og hvernig hann lætur ekki staðreyndir trufla sig, sem í sjálfu sér eru engar nýjar fréttir.

Lokaorð Staksteina eru: "Hann telur orðið farsælla að lygna aftur augum og búa sér til sinn eigin sýndarveruleika." Staksteinaskrifari hefði getað sparað sér pistilinn og vísað á myndina á forsíðu. Hún segir einmitt þessa sögu, betur en hægt er að lýsa með orðum.

 


mbl.is Blæddi úr eyra prestsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrrealískt ástand og aumingjagæska

Ekkert endurspeglar hið súrrealíska ástand í íslenskri pólitík betur en endurkoma Björgvins G Sigurðssonar á þing og þá sér í lagi það sem hann segir sjálfur. Ráðherrann sem svaf á verðinum en slapp við ákæru, tilkynnir komu sína með því að segja:

Ég held að réttarhöld yfir Geir Haarde hafi ekkert með réttlæti að gera.

Með þessu segir hann að landsdómsmálið hafi verið pólitískur hanaslagur, sem eru þungar ásakanir á bæði andstæðinga og samherja. Sjálfur slapp hann. Sumir útskýrðu sýknuatkvæðið með því að Björgvini hafi verið haldið utan við atburðarrásina og hann því ekki vitað neitt. Ráðherrann sjálfur.

Finnst honum virkilega ekkert að því að snúa aftur undir þessum formerkjum? Að hafa verið hlíft út á aumingjagæsku? Að samherjar hans telji að hann hafi verið svo mikill sofandi sauður á ráðherrastóli að það sé rangt að draga hann til ábyrgðar?

Nei, greinilega ekki. Síðdegis, eftir setningu þingsins, birti Smugan stutt viðtal við Björgvin (sem er að skrifa bók). Þar segist hann vera ánægður með að snúa aftur til starfa á Alþingi og að hann hafi ekki fengið egg í hausinn frá æstum mannfjöldanum á Austurvelli.

Það er einn ljós punktur í Smuguviðtalinu. Björgvin segir að þrúgandi andrúmsloft dagsins sé "eftirminnilegt". Gott, hann var þá alla veganna ekki búinn að gleyma atburðum dagsins fyrir kvöldmat.


Það er ekki nóg að tala um að endurreisa virðingu Alþingis. Á meðan þingmenn eins og Björgvin G og Þorgerður Katrín geta sest aftur í stólinn sinn og aðrir sem rúnir eru trausti setið áfram, þá þokast ekkert í virðingarátt.

 


mbl.is Eggjum rigndi yfir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband