"SVOKÖLLUÐ LANDSBYGGÐ"

Það síðasta sem Ísland þarf á að halda er sundrung og klofningur. Það eina sem Samfylkingin býður Íslandi uppá er sundrung og klofningur. Stríðspólitíkin gengur út á að finna óvin og fara í stríð við hann. Ef óvinur finnst ekki er hann búinn til. Svo hefst árásin.

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, skrifar bloggfærslu sem er í takti við stríðspólitíkina:

Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á hinsvegar marga grátkonur

... en mér sýnast breytingarnar sem nú eru boðaðar á heilbrigðisþjónustunni um landið vera skynsamlegar og alveg nauðsynlegar í yfirstandandi harðindum.


hirdfiflJá takk. Núna skal búa til klofninginn "svokölluð landsbyggð" gegn höfuðborginni. Eins og ekki sé nóg komið. Þegar kosið var í fyrra völdu kjósendur sér fulltrúa sem þeir treystu til að stýra bráðaaðgerðum í kreppu. Að slá skjaldborg um heimilin, leiðrétta skuldabyrði, ljúka endurreisn bankanna, standa við stöðugleikasáttmálann og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Stjórnin hefur eytt orku sinni í flest annað.

"Okkur hefur ekki mistekist" sagði Jóhanna á blaðamannafundi í vikunni. Ekki kom fram hvað þeim hefur ekki mistekist. Veit það einhver? Í stað þess að vinna verkin sín hefur Samfylkingin komist upp með að kljúfa þjóðina í hverju málinu á fætur öðru og Vinstri græn breyttust í meðhlaupara á einu augabragði.

Fyrst komu linnulausar árásir á íslensku krónuna, því næst ráðist gegn öllum þeim sem veiða fisk og reglulega er svo atast í bændum. Þá kom fólskuleg árás á meirihluta þjóðarinnar með esb-umsókn, sem var þvinguð fram með pólitísku ofbeldi. Þjóðin er klofin í öllum þessum málum, svo árásir Samfylkingarinnar gengu upp.

Og áfram skal haldið. Næst skal kljúfa lýðinn með rothöggi á "svokallaða landsbyggð", sem hefur búið við samdrátt í aldarfjórðung. Til að bæta gráu ofan á svart rís nú upp Mörður og vill gera þetta að núningi milli "svokallaðrar landsbyggðar" og höfuðborgar í leiðinni. Sorglegast er þó að vita hver skýringin er á þessum linnulausum árásum á íslensku þjóðina. Ekki er þetta grunnurinn að norrænni velferð.

Þegar Samfylkingin þykist vilja víðtækt samráð um lausnir á skuldavanda heimilanna er einfaldlega ekki hægt að taka það alvarlega. Því miður.

 


Bloggfærslur 14. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband