11.10.2010 | 01:07
Ef við hefðum bara ...
Íslenskt samfélag logar. Mótmæli eru haldin víða um land vegna mikils niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu, en í fjárlagafrumvarpi fyrir 2011 er gert ráð fyrir niðurskurði upp á alls 30 milljarða króna.
En hvað ef skera þyrfti niður um 54,7 milljarða?
Þá fyrst myndi allt ganga af göflunum. Ástæðurnar fyrir þessari spurningu eru tvær. Annars vegar að Össur utanríkisráðherra fullyrðir að hér væri miklu betra ástand ef við værum í ESB og með evru, og hins vegar fréttir frá Írlandi, sem verða svartari með hverjum deginum. En Írar eru einmitt í draumasporum Össurar.
Í fréttum Irish Independent segir að til að koma fjárlagahalla í ásættanlegt horf fyrir árið 2014 gætu þeir þurft að skera niður um allt að 5 milljarða á árinu 2011. Annars muni ESB og AGS yfirtaka efnahagsstjórn landsins. Sé miðað við höfðatölu jafngildir það um 54,7 milljarða niðurskurði á Íslandi.
Til að bæta gráu ofan á svart búa Írar við meira atvinnuleysi en Íslendingar, meiri samdrátt, reikna með fólksflótta sem er síst minni en hér og eru auk þess pikkfastir í handjárnum evrunnar. Þeir sjá enga raunhæfa möguleika á efnahagsbata næstu árin. Ætli Össur viti af þessu?
Ef við hefðum bara gengið í ESB og tekið upp evruna ... þá værum við á sömu braut og Írar, Portúgalar, Spánverjar, Grikkir, Finnar og öll hin jaðarríkin í Evrulandi. Ekki furða að Þjóverjar leggi nú til kreppulausnarkerfi (crisis resolution mechanism) sem á að koma í staðinn fyrir evrópska fjárhagsstöðugleikaráðið (EFSF).
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)