27.1.2010 | 18:37
Falleg skaðræðisskepna
"Aðstæður í Þistilfirði eru ekki ákjósanlegar fyrir björgun", sagði í frétt um ísbjörninn, sem þá var ófundinn.
Þótt hvítabjörn sé falleg skepna, úr hæfilegri fjarlægð, getur hann verið stórhættulegur og valdið usla og búsifjum. Þess vegna var ísbjörninn felldur af bónda í Þistilfirði.
Þistilfjörður er heimasveit Steingríms Joð, sem líka þarf að glíma við ísbjörn. Það er hún Ísbjörg, eins og sumir hafa íslenskað Icesave.
Iceseve er ekki falleg skepna eins og bangsi. Steingrímur ætti að taka sveitunga sinn sér til fyrirmyndar og koma þessari skaðræðisskepnu fyrir kattarnef sem fyrst. Ekki hleypa henni á land, þar sem aðeins er tímaspursmál hvenær hún veldur stórfelldu tjóni.
Þjóðþrifaverkið hefst 6. mars þegar við segjum nei við ríkisábyrgð á drápskjörum.
![]() |
Ísbjörninn stoppaður upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2010 | 08:57
Greindarskertir blýantsnagarar
Sumir segja upphátt það sem við hin látum okkur nægja að hugsa. Gamli ritstjórinn Jónas Kristjánsson er stundum hæfilega kjaftfor og lætur kurteisina ekki alltaf flækjast fyrir sér. Í gær birti hann þessa klausu á bloggsíðu sinni:
... Einkum er hávær fjarvera Jóhönnu Sigurðardóttur frá veruleikanum. Hún á að vera á flandri um Evrópu til að laga stöðu Íslands í umheiminum. En hún getur það ekki, er óhæf í starfið. Sama er að segja um alla ráðherra Samfylkingarinnar, eins og þeir leggja sig. Þetta eru blýantsnagarar, sem bíða eftir næsta útborgunardegi. Þar að auki þjást þeir af greindarskorti.
Hver er innistæðan fyrir þessari slæmu einkunn?
Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur, heldur sundurlaus hjörð undir forystu konu sem er þögul, ósýnileg og löngu hætt í stjórnmálum. Leiðtogakreppa vofir yfir. Hjörðin hangir saman á herópinu um inngöngu í Evrópuríkið. Annað ekki.
Það fer lítið fyrir stefnu en því meira um umbúðir og stimpla. "Stöðugleikasáttmáli" heitir einn og "Velferðarbrú" er annar. Svo er það óútfærða "Fyrningaleiðin" og það nýjasta; "Sóknaráætlun 20/20". Þar er þess freistað að finna stefnu með hjálp almennings og á kostnað skattgreiðenda. "Að ná fram samstöðu um lykilákvarðanir og framtíðarsýn" eins og það heitir á kratísku.
Þegar við þetta bætist, að hin stefnulausa hjörð í leiðtogakreppu, berst gegn þjóðinni í tveimur stærstu málum líðandi stundar verður ekki annað sagt en að einkunn Jónasar sé nærri lagi. Og þessi flokkur er í stjórn!
Samfylkingin er skrýtin hjörð og hættuleg.