7.8.2009 | 13:00
Steingrímur Joð í kassa
Vinstri-græn gengu til stjórnarsamstarfs með hreinan skjöld, saklaus af þeim sóðaskap sem komið hefur Íslandi í hörmungarstöðuna sem við blasir. Steingrímur J Sigfússon, sem alltaf hefur virkað trúverðugur pólitíkus, fékk það erfiða hlutverk að stýra fjármálaráðuneytinu. Þangað hafa safnast mörg verstu málin sem við er að glíma. Hann þarf að hreinsa til eftir aðra, taka margar erfiðar ákvarðanir og sumar óvinsælar.
En ráðherrar eru mannlegir og enginn er óskeikull.Er Samfylkingin stikkfrí í þessum málum? spurði Sigmar í Kastljósinu í gær. Steingrímur sagðist fá fullan stuðning frá samstarfsflokknum. IceSave er stærst þeirra stórmála sem fjármálaráðuneytið þarf að sinna núna. Þegar menn vinna langa vinnudaga og vikum saman að erfiðum verkefnum er hætta á að menn verði á endanum "hluti af verkefninu" sjálfir, það þekki ég af eigin raun. Vegna þreytu tapast skerpa og menn hætta að geta hugsað útfyrir kassann til að skoða ný sjónarhorn.
Í Kastljósinu í gær fannst mér Steingrímur einmitt vera komin í þessa stöðu, því miður. Hann bandar frá sér skoðunum sem ekki ríma við hans eigin, stillir sjálfum sér upp sem fórnarlambi aðstæðna og lætur sem leiðin sé endanlega mörkuð og hann fái engu um framvinduna ráðið. Ráðherrann er orðinn hluti af verkefninu og búinn að loka sig inn í kassa og missa jarðsambandið. Þó að hann sé vissulega flugmælskur virkar hann uppgefinn, skiljanlega.
Það er rétt hjá Steingrími að nú þurfa allir að leggjast á árarnar og finna farsæla leið út úr briminu. En menn verða þá líka að fá að komast að árunum. Það gengur ekki ef verkstjórinn er örmagna af þreytu, búinn að tapa fókus og bandar frá sér þeim sem vilja endurskoða stefnuna og samræma áralagið. Ég legg til að Steingrímur fari heim úr vinnunni strax eftir hádegið í dag. Slökkvi á símanum og taki sér langt helgarfrí. Splæsi á sig nuddi og slökun, lesi falleg ljóð, horfi á enska boltann og fái sér kaldan bjór með. Hlaði batteríin. Hann getur svo mætt aftur til vinnu eftir nokkra daga með skarpari fókus, ef hann vill áfram vera ærlegur pólitíkus.
Það getur verið hættulegt að setjast of þreyttur undir stýri. Það er líka varasamt að maður sem er örmagna af þreytu stýri svo stóru og snúnu máli sem IceSave er.
Hann lagði þunga áherslu á að halda stjórninni gangandi. Þó það sé góðra gjalda vert má miðpunkturinn í IceSave ekki vera sá að kosta öllu til til að halda einni ríkisstjórn saman. Þetta er of stórt mál til þess.
![]() |
Vill ekki stríð við aðrar þjóðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |