6.8.2009 | 21:02
IceSave snýst um smáaura
Það sorglega við IceSave er að peningarnir sem um er að tefla eru bara smáaurar. Fyrir Breta, vel að merkja. En drápsklyfjar fyrir okkur. Meint skuld okkar við þá jafngildir því að t.d. Færeyingar skulduðu okkur 1,8 milljarða. Það leggur sig á sirka tvö afskrifuð kúlulán í Kaupþingi.
Ef við samþykkjum ríkisábyrgð brosa Bretar útí annað, koma við á pöbbnum á leiðinni heim og svo er málið gleymt. Alla vega þessi blessuðu pund. Eftir nokkrar vikur væri þetta bara fjarlæg minning um leiðindamál, sem gleymist. En við sætum eftir með óbærilegar skuldir og skert lífskjör næstu 3-4 áratugina.
Ef efnahagur Færeyja væri í rúst og þeir skulduðu okkur (að okkar mati, en ekki þeirra) 1,8 milljarða, myndum við þá ganga hart fram í innheimtu? Veifa umdeildri lagatúlkun okkar og krefjast vaxta? Tæplega.
Hvað er þá málið? Fyrir Breta, Hollendinga og ESB er þetta fyrst og fremst prinsippmál. Það bara hlýtur að vera.
Ekki veit ég hvort Ingibjörg Sólrún talaði af sér þegar hún sagði að ekki væri hægt að láta reyna á IceSave fyrir dómstólum. Það gæti stefnt bankarekstri í Frakklandi og Spáni í tvísýnu. Við gætum ekki valdið slíku óöryggi.
Er það ekki mergur málsins; það má ekki styggja Evrópusambandið? Fyrir þá er þetta prinsippmál, svo ekki skapist óvissa um tryggingakerfin í Evrópu. Það er kannski skiljanleg afstaða. Fyrir okkur er þetta spurning um lífskjör næstu áratugina. Og fólksflótta.
Það hlýtur að vera hægt að finna ásættanlega málamiðlun, nema menn séu búnir að semja af sér. Það getur ekki verið að það sé kappsmál fyrir Breta og Hollendinga að gera útaf við fámenna þjóð. Þeir hljóta að vera leita lausna en ekki hefnda.
Ef samningnum er hafnað, hvort sem er beint með því að segja nei, eða óbeint með því að setja afgerandi fyrirvara, þá eigum við ekki að óttast refsiaðgerðir. Því síður einangrun frá alþjóðasamfélaginu, eins og nú er í tísku að hóta. Við eigum að ganga útfrá því að í siðmenntuðum, vestrænum ríkjum sé leitað samninga, eftir reglum réttarríkisins. Bretar eru ekki villimenn og Hollendingar ekki heldur.
![]() |
Svigrúm til að setja skilyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2009 | 16:55
Í liði gegn þjóð sinni?
Í FRÉTTABLAÐINU í dag er athyglisverð grein eftir Þorvald Gylfason sem ber yfirskriftina og spurninguna "Í röngu liði?". Þar segir Þorvaldur meðal annars:
Ríkisstjórnin hefur ekki hirt um að marka sér skýra stöðu við hlið fólksins í landinu gegn ábyrgðarmönnum hrunsins.
Hún heldur áfram að hegða sér að ýmsu leyti eins og máttvana handbendi þeirra, sem lögðu bankana og efnahagslífið í rúst.
Það er athyglisvert að lesa ádrepu Þorvaldar og þá slöku einkunn sem hann gefur sitjandi ríkisstjórn. Ekki síst í ljósi þess að hann er sagður stuðningsmaður Samfylkingarinnar. Í lok greinarinnar segir:
Ef stjórnin teflir frá sér trausti fólksins, sýnist fullreynt, að stjórnmálastéttin er ófær um að leiða Ísland út úr ógöngunum, sem hún ásamt öðrum leiddi landið í.
Undirstrikanir eru mínar.
Í fyrri hluta greinarinnar fjallar Þorvaldur um "arfleifð gömlu bankanna" og helmingaskipti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, aðkomu viðskiptaráðs og ýmislegt fleira. Grein hans í heild má finna hér.
Það líta ekki allir fortíðina sömu augum. Ekki ætla ég mér að dæma um hvað er rétt um helmingaskiptin en bendi á færslu Halldórs Jónssonar (hér) til að fá annað sjónarhorn á málið.
Mér sýnist báðir þessir herramenn hafa nokkuð til síns máls.