14.8.2009 | 18:47
HIN ÍSLENSKA "GLÆPAÞJÓÐ"
"Á glæpaþjóðin einhvern valkost?" var skrifað í athugasemd við síðustu færslu. Hún var um grein sem Sigurður Líndal lagaprófessor skrifaði um IceSave. Þar segir hann að grundvallarreglum í samskiptum siðaðra þjóða hafi verið vikið til hliðar í deilunni. Það var "þægilegt að fórna Íslandi", enda skipti það Evrópu litlu sem engu máli.
Andstaðan almennings við IceSave byggist fyrst og fremst á því að Bretar neyttu aflsmunar í málinu. Réttlætiskenndin segir okkur að það eigi aldrei að láta ofbeldi óátalið, sama í hvaða mynd það birtist. Það vill enginn víkjast undan ábyrgð en heldur ekki láta þröngva upp á sig óréttmætum drápsklyfjum í krafti hnefaréttar.
Eru Íslendingar glæpaþjóð?
Mér þykir mjög dapurt þegar ég heyri Íslendinga réttlæta IceSave skuldbindingar með því að dæma sig glæpaþjóð. Mafían gerir ekki sikileyska bændur að glæpamönnum, eins og bent er á í annarri athugasemd. Idi Amin var hrotti en það gerir ekki börn í Uganda að glæpamönnum. Þrjátíu íslenskir útrásardólgar létu stjórnast af glæpsamlegri græðgi, en það gerir okkur ekki að glæpaþjóð. Og ekki koma með skýringuna "við kusum þetta yfir okkur í mörg ár í röð", hún heldur ekki. Andrés Magnússon kom vel inn á það í ræðu sinni á Austurvelli í gær.
Og jafnvel þótt einhver vildi hanga á þessari "skýringu" þá réttlætir hún ekki IceSave samninginn. Engan veginn. Í siðmenntuðum réttarríkjum eiga jafnvel hörðustu glæpamenn stjórnarskrárvarinn rétt til málsmeðferðar fyrir dómi. Að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Að skorið sé úr um sekt eða sýknu eftir málflutning sækjanda og verjanda. Að dæmt sé samkvæmt lögum.
Bretar tóku sér þann rétt, í kafti stærðarinnar og í trássi við leikreglur, að vera sækjandi, verjandi og dómari í málinu. Neituðu eðlilegri dómstólaleið. Þeir bjuggu til nauðungarsamning að eigin geðþótta. Í því liggur kúgunin sem íslenskur almenningur á að þurfa ekki að sætta sig við. Það á að fara að leikreglum siðaðra þjóða og leita réttlátrar niðurstöðu.
![]() |
Veikir fyrirvarar verri en engir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)