Össur bullar og bullar

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, segir "að ein ástæða fyrir því að Íslendingar hafi ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé sú að nú standi yfir endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum landsins."

     Hvaða Íslendingar? Ekki þjóðin.

     Var endurskoðun á utanríkisstefnu á dagskrá í kosningabaráttunni?

     Var kosið um það í þingkosningunum 25. apríl?

     Var líka kosið um að segja Ísland úr NATO?

Einn þingmaður VG segir að við höfum kosið um IceSave í apríl. Nú segir Össur að við höfum kosið um endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum. Það er svolítið sérstakt lýðræði að segja kjósendum hvað þeir kusu um, eftir kosningar.

Og ráðherrann bætir um betur (hér): "Við erum ekki að ganga í Evrópusambandið til að bregðast við kreppunni, það er mikill misskilningur."

Nú jæja.

Þó að Samfylkingin hafi fyrir löngu sett stefnuna á Brussel fór ekkert á milli mála í kosningunum í apríl að innganga í ESB var sett fram sem lausn á kreppunni. Ingibjörg Sólrún talaði um hana sem stefnu í peningamálum!

Björgvin G Sigurðsson sagði að aðild að ESB "varðaði leiðina út úr kreppunni". Jóhanna Sigurðardóttir talaði um aðild sem "lykilatriði í efnahagslegri endurreisn". Hver frambjóðandinn á fætur öðrum fullyrti að eina leiðin út úr kreppunni væri að gerast aðili að Evrópusambandinu. Samfylkingin fékk drjúgan hluta atkvæða sinna út á þessa "lausn" á vandanum.

Nú segir Össur að þetta sé mikill misskilningur.


Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er stærsta utanríkismálið í sögu lýðveldisins. Það er svo stórt og viðkvæmt, að sá sem ætlar að stýra því verkefni verður að hafa óskorað traust þjóðarinnar. Ráðherra sem slær fram eftiráskýringum, sem eru í engu samræmi við umræðuna í samfélaginu, rýrir bæði eigið traust og ríkisstjórnarinnar meira en ásættanlegt getur talist. 

 


mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband