22.7.2009 | 12:19
Brotlent í Brussel
Utanríkisráðherra Hollands hefur tekið af allan vafa (hér) um að IceSave samningarnir og ESB umsókn eru mál sem hanga saman. Og það kyrfilega. Engu skiptir hversu ákaft Össur og Steingrímur mótmæla, staðreyndirnar blasa við.
Nú væri hollt að líta framhjá því, eitt augnablik, hvort menn eru með eða á móti því að Ísland sæki um aðild að ESB. Skoða málin í réttu ESB/IceSave samhengi.
Viðbrögð hollenska ráðherrans undirstrika hvílík mistök það voru að samþykkja aðildarumsókn án þess að ljúka IceSave deilunni fyrst. Þar brást þingið þjóðinni illilega með því að setja hlutina ekki í rétta forgangsröð.
Vilji ESB til að fá Ísland í klúbbinn er augljós, eins og fram kemur í umsöng Carls Bildt (hér). Það hefði átt að vera tromp á hendi Íslendinga. Bildt sér hag ESB í "aðkomu þess að norðurskautssvæðinu" en nefnir hagsmuni Íslendinga ekki einu orði. Með gjörningnum á Alþingi 16. júlí henti þingið trompinu frá sér.
Öflugasti bandamaður Breta og Hollendinga í IceSave deilunni er Samfylkingin. Hinn einlægi ásetningur hennar, að skríða til Brussel með bundið fyrir augun, hefur gert okkar tromp að þeirra. Þeim var fært það á silfurfati.
Svo er það rúsínan í pylsuendanum.
Til að fullkomna hringlandaháttinn segist Ögmundur Jónasson núna aðeins vilja hugsa um þjóðarhag (hér). Hann hefði átt að byrja á því fyrr, áður en hann sagði já við ESB umsókn á fimmtudaginn.
Össur er lagður af stað til Stokkhólms. Hann veit að Icelandair ætlar að bjóða upp á beint flug til Brussel fljótlega. Flugtíminn þangað, aðra leiðina, er ekki ýkja langur. Ef allt gengur að óskum krata, mun íslenska þjóðin brotlenda í Brussel um klukkan 20:12 að staðartíma.
![]() |
Ræðir við Bildt um ESB umsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |