Pólitískar sjónhverfingar?

Það er ein setning í viðtengdri frétt sem ég hnaut sérstaklega um:

Jóhanna vill láta leggja sérstakt álag á fjármálastofnanir sem gangi inn í tryggingasjóðinn til að hindra að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldirnar sem kunni að falla á Tryggingasjóð innstæðueigenda eða ríkið vegna þessa.

Og hverju breytir það?

magic_moneyRíkisábyrgð á IceSave þýðir að það verða 320 þúsund Íslendingar sem borgar brúsann. Það er ekki hægt að töfra skuldina í burtu. Það skiptir ekki máli hvort við heitum skattgreiðendur, sjúklingar, lántakendur eða eitthvað annað meðan við borgum.

Ef álag er lagt á fjármálastofnanir hlýtur það að koma fram í kjörunum sem þær bjóða; lakari lánakjör eða lægri innlánsvextir. Það skiptir ekki máli í hvaða formi almenningur tekur á sig þessar dæmalausu drápsklyfjar, þær verða alltaf jafn þungar.

Með tilfærslum verða ekki til ný verðmæti í samfélaginu eins og fyrir einhverja galdra.

Hærri skattar, skert þjónusta, lakari lánakjör, hækkað verðlag eða lækkuð laun. Klyfjarnar léttast ekki við að skipta um nafn á þeim. Pólitískar sjónhverfingar eru ekki gjaldgeng mynt.

 


mbl.is Tortryggni í samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðiálit í boði Baugs?

Það fyrsta sem maður rekur augun í er merki LOGOS í bréfhausnum. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan lögreglan og sérstakur saksóknari gerðu húsleit hjá lögmannsstofunni vegna meintra auðgunarbrota. Það er ekki heppilegt að álitið sé merkt LOGOS.

Lögfræðingurinn, Jakob R. Möller, var verjandi í Baugsmálinu og lögmannsstofan hefur víðtæk tengsl við Baug. Nú, þegar trúverðugleiki er talinn lykilatriði, verður val ríkisstjórnarinnar á lögmanni að teljast klaufalegt.

Svo hefst lesturinn.
„Mér er tjáð ..." kemur fyrir tvisvar í inngangi og bendir til að ekki hafi verið unnið eftir skjalfestum gögnum. Orðalagið gefur til kynna að ekki hafi verið rætt við hlutaðeigandi til gagnaöflunar heldur upplýsingar fengnar munnlega frá þriðja aðila. Var þessu hespað af í flýti?

lawyersNokkrar athugasemdir eru áhugaverðar. T.d. um vaxtakjör í 7. gr. og gjaldfellingarákvæði í 12. gr., þar sem í báðum tilfellum er borið saman við almenn lán. Hér er þó um að ræða nauðasamninga um ríkisábyrgð, þar sem þvingunum var beitt. Fleiri dæmi má nefna sem sýna frekar hollustu við verkkaupann (ríkisstjórnina) en faglegan metnað lögfræðings. 

Oftar en einu sinni er vísað í yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar frá haustmánuðum, sem gefnar voru við óeðlilegar kringumstæður, löngu áður en línur fóru að skýrast. Þær voru þó aldrei staðfestar af Alþingi. Maður fær á tilfinninguna að tilgangurinn sé að koma pólitískri sök á fyrri stjórnvöld, þó það sé alls ekki hlutverk lögfræðilegs álitsgjafa. Það er síðan undirstrikað í lokaorðum.

Það er rúsínan í pylsuendanum.

Í lokaorðunum á bls. 7 tekur höfundur fram að hann hafi ekki sérþekkingu á sviði þjóðarréttar. Í kjölfarið kemur svo setning sem efnislega þýðir „Þetta IceSave vesen er sko ekkert Samfylkingunni að kenna."

Ég spurði tvo lögfræðinga, hvorn í sínu lagi, álits á álitinu. Það fyrsta sem báðir nefndu var skortur á lögfræði hjá lögfræðingnum og „ótrúlega léleg röksemdafærsla".

Þó Jakob R Möller sé eflaust hinn mætasti maður og lögmaður góður þá verð ég að segja að þetta lögfræðiálit virkar hvorki trúverðugt né hlutlaust. Meira eins og niðurstaðan hafi verið pöntuð. Tengingin við Baug og útrásina er ekki til að hjálpa.

 


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

792 milljónir á dag

Mat á eignum Landsbankans sem kunngert var í gær sýnir að þær hafa rýrnað um 95 milljarða. Þær hafa rýrnað um 792 milljónir á dag frá 20. febrúar. Þetta eru ekki litlar fjárhæðir. Engin trygging er fyrir að rýrnunin verði ekki enn meiri.

Vextirnir af IceSave láninu, óskiptum höfuðstól, eru 100 milljónir á dag.

Ef þetta er sett í samhengi við atvinnu- og gjaldeyristekjur Íslendinga á næstu árum, þá liggur beinast við að mæla þetta í þorski. Þorskkvótinn verður væntanlega 150 þús tonn. Verð á þorski sem landað er í Bretlandi var í gær um 338 kr/kg að meðaltali. Verðmæti alls þorskafla í heilt ár er því um 50 milljarðar.
Það þýðir að 3/4 þorskafla Íslendinga fer í að greiða vexti af IceSave láninu.

financial-crisisÞað þarf ekki snilling til að sjá að þetta getur aldrei gengið nema með óbærilegum fórnum. Þessar fórnir eru þegar byrjaðar að birtast, t.d. í niðurskurði og kostnaðarauka í heilbrigðiskerfinu. IceSave skuldaklafinn gæti dæmt þjóðina alla til þrenginga og jafnvel fátæktar í 2-3 áratugi.

Til að bæta gráu ofan á svart er líklegt að þeir sem "kjósa með fótunum" og yfirgefa landið næstu 7 árin verði ungt fólk á vinnumarkaði, sem gerir byrðarnar enn þyngri fyrir þá sem eftir sitja.

Það er endalaust hægt að þrefa um hverjir bera mesta sök. En það er hin skelfilega staða dagsins í dag sem þarf að glíma við. Ég myndi ekki treysta á að Björgólfur Thor komi með lausnir sem létta þjóðinni byrðarnar og því miður ber ég ekki mikið traust til ríkisstjórnarinnar heldur. Nauðasamningurinn um IceSave gefur ekki tilefni til þess.

 

 


mbl.is Hugsar daglega um Icesave-klúðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband