29.5.2009 | 13:42
NÝIR DRAUGAR (tilbúnir 7. júní)
Nei, ég er ekki að tala um Gláminn með glyrnurnar, ekki um óperudrauginn og hvorki um móra né skottur eða góða drauginn Casper. Heldur alvöru drauga. Drauga af holdi og blóði sem eru hannaðir í Brussel og verða smíðaðir í næstu viku. Og þetta er alveg dagsatt!
Enn ein birtingarmynd fáránleikans verður afhjúpuð þegar 18 draugar verða kjörnir á Evrópuþingið. Phatnoms of the Parliament eru þingmenn sem fá að sitja sem áheyrnarfulltrúar án atkvæðaréttar. Þeir fá "observer status" og þiggja full þingmannslaun.
Og hvernig stendur á þessu?
Það verða kjörnir 754 þingmenn í kosningunum í næstu viku. Ekki 736, eins og gildandi reglur Nice sáttmálans segja til um, heldur 754 samkvæmt Lissabon samningnum. Sá samningur var ekki samþykktur og er ekki í gildi, en strákunum í Brussel (sem hundleiðist allt lýðræði) datt það snjallræði í hug að kjósa eftir honum samt.
Þessir draugar eiga að breytast í fullgilda þingmenn þegar Lissabon samningurinn verður lögtekinn. Ó já, ekki ef heldur þegar. Þeir gætu þurft að vera draugar í allt að tvö ár.
Það er búið að ákveða úrslitin fyrirfram; samningurinn skal samþykktur þegar Írar verða látnir kjósa um hann í annað sinn. Þeim leiðst svo lýðræðið, strákunum í Brussel.
Hvað er lýðræði?
Samkvæmt brussel-evrópskri orðabók:
lýðræði = þú gerir eins og stjórnmálastéttin er búin að ákveða að sé þér fyrir bestu.
En þetta verður í síðasta sinn sem strákarnir í Brussel þurfa að svína á lýðræðinu með því að beita brusselsku orðabókinni sinni. Með gildistöku Lissabon samningsins verður lýðræðinu endalega úthýst úr Evrópusambandinu. Þegnarnir munu framvegis aldrei kjósa um neitt sem skiptir máli. Í besta falli nokkra drauga á þing.
![]() |
Fyrstu umræðu um ESB-tillögu lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |