26.5.2009 | 16:38
Landsbankinn fær sér togara
Munu bankarnir fara að frysta síld? Endar útgerð í ríkiseign? Ef banki eignast kvóta, verður hann þá innkallaður með fyrningarleið eins og kvóti útgerðarfélags?
Í upplýsingum um fyrningarleiðina, á vef Samfylkingarinnar, er að finna ýmsa athyglisverðu punkta. Hér eru nokkrir úr stefnuritinu Skal gert (bls. 58-59) sem varða kvóta sem kemst í eigu banka:
- Ætla má að við núverandi aðstæður geti fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja orðið gjaldþrota og veðsettar aflaheimildir lent í eigu bankastofnana.
- Leita þarf leiða til að endurúthluta þeim aflaheimildum sem hverfa frá núverandi handhöfum með útboði ...
- Aflaheimildir séu ekki varanlegar heldur úthlutað til tiltekins tíma í senn og gegn gjaldi.
- Aðrar aflaheimildir þarf síðan að afskrifa á hæfilega löngum tíma, gegn niðurfellingu veiðigjalds, og endurúthluta með sama hætti.
Spurningar sem vakna eru t.d. þessar:
Á að innkalla kvóta í bankaeign á 20 árum, um 5% á ári?
- Ef svo, er það þá með "fyrningarleið" án endurgjalds?
- Fengi bankinn þá leigugjaldið fyrir kvótann á fyrningartímanum?
- Myndi þá sama regla gilda um ríkisbanka og aðra banka?
- Þyrfti Landsbankinn e.t.v. að fá sér togara til að nýta verðmætin?
- Er hugsanlegt að það standist ekki lög að innkalla kvóta bankans án endurgjalds?
- Hvaða gjald myndi þá ríkið greiða bankanum á hvert kíló?
- Svo kemur stóra spurningin: Ef bankinn fengi greiðslu, er þá hægt að innkalla keyptan kvóta útgerðarmanns án þess að greiðsla komi í staðinn?
- Verður ekki sama regla að gilda um alla kvótaeigendur?
- Hvað ef bankinn er erlendur, hver er réttarstaðan?
Svo er allt önnur spurning í þessu dæmi hvort rétt sé að nýtt kvótakerfi komi í staðinn fyrir það gamla. Pólitísk úthlutun gegn veiðigjaldi. Það væri kannski ráð að líta til nágranna okkar í Færeyjum, en "færeyska fiskidagakerfið" hefur reynst þeim betur en kvótinn. Það er byggt á sóknarmarki.
Innleiðing á því yrði síður en svo flóknari en að skipta óréttlátu kvótakerfi út fyrir pólitískt. Kannski meira um það síðar, ef tilefni er til.
![]() |
Síldarfrysting hafin á Vopnafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2009 | 00:38
Kvótareglur afnumdar 2012
Sjávarútvegsráðherrar ESB ákváðu að afnema reglur um úthlutun fiskveiðikvóta. Samkvæmt BBC á að minnka miðstýringu og auka völd aðildarríkjanna. Þetta á m.a. að sporna gegn brottkasti og er liður í breytingum á sjávarútvegsstefnu ESB sem taka eiga gildi 2012. Ekki kemur fram hvort frekari breytingar eru í farvatninu.
Þetta ættu að teljast breytingar til batnaðar. En um leið undirstrika þessar fréttir að ef Ísland ætlar að tryggja sér varanlegan yfirráðarétt yfir auðlindinni í eigin fiskveiðilögsögu, sem aðildarríki ESB, þarf að gera það í aðildarsamningnum sjálfum. Í plaggi sem hefur lagalegt gildi til jafns við grunnsamninga sambandsins.
Ef hægt er að breyta sjávarútvegsstefnunni verulega 2012 er hægt að breyta henni aftur 2017 eða 2022. Undanþágur "innan ramma sjávarútvegsstefnu sambandsins" eins og nefndar hafa verið, eru því engan veginn nægileg trygging. Ekki fyrir íslenska þjóð, sem á jafn gríðarlega mikið undir þeim tekjum sem fiskveiðar skapa og raun ber vitni.
Evrópufræðingur sagði í Kastljósi nýlega að íslenskir stjórnmálamenn væru liðleskjur ef þeir gætu ekki samið þannig að allt yrði óbreytt varðandi stjórn fiskveiða hér við land eftir inngöngu í ESB. Það verður fróðlegt að sjá hvaða leið menn ætla að því marki.
![]() |
Sammála um að breyta fiskveiðireglunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)