"Only for you, my friend"

Það góða við þessa frétt er að fylgi Samfylkingarinnar minnkar. Það dregur úr hættunni á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er sagt frá hættumerki, en sömu frétt má sjá hér á vísir.is 


Indefence-hópurinn afhenti Bretum undirskriftarlista með mótmælum við beitingu hryðjuverkalaga. Þeim var beitt vegna IceSave.

Bretar svöruðu því til að þeir séu tilbúnir að hjálpa Íslendingum að komast inn í ESB á mettíma. Á einu ári! Þetta hljómar eins og "only for you my friend" tilboð. Það er alltaf fals á bakvið þau.

Og hvað hefur innganga í ESB með IceSave að gera?

Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt.

Eða þannig ætti það að vera. Hjálpsemi Breta er alveg örugglega til að tryggja þeim fullan sigur í IceSave deilunni. Að þeir fái allt greitt. Það hentar Bretum að blanda þessu saman, því þeir vita að Samfylkingin er tilbúin að leggja IceSave drápsklyfjar á þjóð sína, vegna ofuráherslunnar á drauminn um ESB. Ekki einu sinni að láta á það reyna fyrir dómstólum hver lagaleg skylda okkar er í málinu. Eins gott að slíkur aumingjaskapur var ekki ráðandi á sjöunda og áttunda áratugnum. Þá hefðum við gefist upp fyrir Bretum fyrirfram og ekki fært út landhelgina.

En það er annað í þessu máli, sem þarf að taka alvarlega. Caroline Flint, Evrópumálaráðherra í bresku ríkisstjórninni segir í bréfi vegna málsins að aðgangur að fiskimiðum yrði væntanlega stórt atriði í þessu máli.

Já þeir eru hjálpsamir Bretarnir, vinir okkar. Only for you my friend.

Bretar hafa alla tíð verið sérlegir vinir okkar. Eitt hernám, 2-3 þorskatríð, löndunarbann og hryðjuverkalög eru bara lítilsháttar hnökrar á annars ágætum samskiptum. Kannski aflétta þeir hryðjuverkalögunum líka, ef þeir fá að veiða smá. Ef þetta gefur tóninn fyrir aðildarviðræður Íslands að ESB, þá gef ég ekki mikið fyrir það.


mbl.is Dregur saman með flokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur

Þó að Samfylkingin fengi hreinan meirihluta á þingi, gæti hún ekki myndað ríkisstjórn.

Það er líklegri skýring á þögn Jóhönnu en að hún tali ekki nógu góða ensku eða dönsku. Ég gef lítið fyrir slíkar vangaveltur. Eiginlega vonlaust að útskýra uppgjafarstefnu Samfylkingarinnar, sama hvað tungumálið heitir.

Það kom glöggt í ljós, þegar Ingibjörg Sólrún þurfti að fara í veikindafrí, hversu sundurleit hjörðin er. Fundurinn í Þjóðleikhúskjallaranum undirstrikaði það. Svo var Ágústi Ólafi ýtt til hliðar, í fullri sátt, eins og það heitir.

Þegar Ingibjörg Sólrún þurfti, veikinda sinna vegna, að hætta þátttöku í stjórnmálum að sinni, hófst leitin að nýjum formanni. Jón Baldvin bauð fram krafta sína en var hafnað. Árni Páll var ekki til í formanninn, Dagur ekki heldur. Eða var honum hafnað líka? Enginn nefndi Össur. Frekari leit var gerð en án árangurs. Einn fundarmanna á landsfundi skýrði það þannig fyrir mér að ekki næðist sátt milli fylkinga innan Samfylkingarinnar.

Þar eru nefnilega ennþá Alþýðuflokkurinn og Þjóðvaki, einhver rest af Kvennalistanum, menn úr gamla Alþýðubandalaginu og enn aðrir sem stóðu utan flokka eða tilheyrðu eingöngu R-listanum. Upp á síðkastið hafa fyrrum Sjálfstæðismenn bæst í hópinn. Veit ekki með Framsókn, en líklega má finna menn þaðan líka.

Það tókst sem sagt ekki að finna formann.

Jóhanna sagði strax nei. Hún hafði ekki áhuga á að taka að sér formennsku í Samfylkingunni. Það er svo sem skiljanlegt, hún er komin með fullan eftirlaunarétt eftir þrjá áratugi á þingi og ætlaði að hætta fljótlega í stjórnmálum.

En af því að það er enginn annar stjórnmálamaður í Samfylkingunni neyddist Jóhanna til að taka að sér starfið. Hún er formaður, gegn vilja sínum.

Ef Samfylkingin fengi hreinan meirihluta þá kæmu allar klíkurnar upp á yfirborðið aftur. Úr því ekki var hægt að finna eða sameinast um formann sem vildi leiða flokkinn, hvernig gæti Samfylkingin mannað heila ríkisstjórn? Hún bara gæti það ekki. Það næðist aldrei sátt um heilt dúsín manna til að fylla stólana. Velferðarbrú til Brussel er nefnilega stefna sem ekki er hægt að fela sig á bakvið í öllum ráðuneytum.


mbl.is Þögn Jóhönnu til umræðu í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband