Velferðarbrú til Brussel

Nú talar Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptráðherrann sem svaf á vaktinni þegar bankakerfið hrundi, um að Evrópustefnan verði að var á hreinu. Ég er ekki hissa á því, það er eina stefna Samfylkingarinnar.

Þegar Jóhann Sigurðardóttir mætti í sitt fyrsta Kastjósviðtal sem forsætisráðherra, svaraði hún átján spurningum með "við munum skoða það".

Núna fyrir helgina svara hún, eins og aðrir flokksleiðtogar, 24 spruningum Fréttablaðsins. Flestum þeirra er svarað með "Já, ef það reynist hagkvæmt" eða "Já, ef menn telja það skynsamlegt". Engin hrein svör, bara önnur útgáfa af "við munum skoða það"

Ég finn stundum til með Jóhönnu af því að ég tel hana ærlegan stjórnmálamann. Hún er eini stjórnmálamaðurinn í Samfylkingunni. Fyrir tveimur árum vildi hún fara varlega í Evrópumálum, en eftir að hún neyddist til að taka að sér formennsku í Samfylkingunni, hefur hún ekki átt annars kost en að kyrja trúboðið með öllum hinum. Dæmd til að vera forsöngvari.


Það voru samt fjórar spurningar Fréttablaðsins sem Jóhanna gat svarað hreint og hiklaust. Þær voru:

  • Að sækja strax um aðild að ESB
  • Að taka upp evruna
  • Að byggja álver
  • Að afturkalla kvótann í áföngum

Auðvitað eru engar forsendur til að byggja álver á næstunni og því óhætt að lofa því. En þetta með kvótann er magnað. Helgi Hjörvar upplýsti (líklega óvart) að Samfylkingin hefði ekki ætlað að hafa neina stefnu um sjávarútveg. Einhverjir ákváðu að bjarga andlitinu á landsfundi og rissuðu upp "fyrningaleið" í flýti. Þannig á að ná kvótanum af útgerðinni í áföngum, líka þeim sem greiddu hann fullu verði og þáðu ekki gjafakvóta.

Fyrningaleiðin hentar vel til að veikja varnirnar. Taka kvótann, koma útgerðinni örugglega á hausinn og leggja landsbyggðina í rúst. Þá er eftirleikurinn auðveldari, að koma allri þjóðinni inn í ESB. Þetta er grunnurinn sem uppgjafarstefna Samfylkingarinnar stendur á; að byggja velferðarbrú til Brussel og leggja niður Ísland, eins og við þekktum það.

Það er ekkert hættulegra fyrir framtíð Íslands en uppgjafarstefna Samfylkingarinnar.


mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einangrun innan ESB

"Einangrun eða ESB" segir í fyrirsögn greinar á sem birt var á vef ungra jafnaðarmanna í liðinni viku. (Vekur athygli að móðurskip ungliðanna, samfylkingin.is, er hýst erlendis! Hefur Samfylkingin enga trú á íslenskum fyrirtækjum eða vill hún bara ekki taka þátt í að efla atvinnu.) Í inngangi er velt upp tveimur spurningum, sem sagðar eru hinir "skýru valkostir" og þeirra verði kjósendur að spryja sig áður en gengið er til kosninga.

Vil ég að Ísland loki sig af?

Vil ég að Ísland sé hluti af alþjóðasamfélaginu?


Svar: Ég vil að Ísland sé áfram virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna, en alls ekki að Ísland loki sig af inni í ESB. Sú einangrunarstefna er ekki góð.

Auðvitað veit ég að greinarhöfundur meinti þetta ekki svona, enda ungur jafnaðarmaður. Allir ungir jafnaðarmenn eiga að styðja uppgjafarstefnu Samfylkingarinnar sem gengur út á að byggja "velferðarbrú til Brussel". Þeim ber líka að trúa því að innganga í ESB sé "stefna í peningamálum" og að án inngöngu breytist Ísland í Kúbu norðursins. Það er línan.

ESBSpurningarnar tvær eru byggðar á einni af nokkrum helstu klisjum sem notaðar eru í gagnrýni einangrunarsinna í garð þeirra sem vilja að Ísland standi áfram utan ESB. Hinar varða fullveldið, meintan dauða krónunnar, áhrifaleysi á lagasetningu og fleira. Nýjasta trikkið í hræðsluáróðrinum er að segja "annars verðum við rekin úr EES". Þá eigum við að vera hrædd og halda að við færumst hálfa öld aftur í tímann. Bretar reyndu að kalla fram þessi árhrif 1975 með löndunarbanni í þorskastríðinu. Læt duga að sinni að fjalla um "einangrunina".


Í hverju felst svo einangrunin?

Ísland á aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum, sem varða flesta þætti samfélagsins og mannlífsins: Viðskipti, atvinnu, menningu, listir, umhverfismál, mannréttindi, heilbrigðismál, náttúruvernd, öryggismál og fjölda marga málaflokka aðra. Þó Íslendingar taki ákvörðun um að bæta ekki 60. klúbbnum við verður okkur ekki úthýst úr hinum 59. Við verðum áfram í þeim og virkir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Og getum áfram átt full og óhindruð samskipti við stór lönd og smá í öllum heimsálfum.

Ef við hins vegar göngum í ESB breytist þetta, ekki síst á sviði viðskipta.

Núna eru t.d. í gildi fríverslunarsamningar EFTA við Kanada, S-Kóreu og fleiri lönd. Ísland, sem EFTA ríki, á aðild að þeim en þessi lönd eru ekki með samninga við ESB. Að auki á EFTA í viðræðum við nokkur ríki til viðbótar, m.a. Indland og Rússland, auk viðræðna sem Kínverjar stofnuðu til við Ísland um fríverslunarsamning.

Ef Ísland gengur í ESB er okkur ekki lengur leyfilegt að gera frjálsa viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem Ísland myndi þar með tilheyra tollabandalagi sambandsins og samningar þess gilda fyrir Ísland. 

Innganga í ESB er ekki tímabundin redding. Hvort skyldi vera betri kostur til framtíðar, þegar endurreisa þarf Ísland, að þurfa að láta öll erindi ganga í gegnum Brussel eða hafa fullt vald til að eiga frjáls samskipti við allan heiminn? 

 


Klámhundurinn Benedikt

Jóhanna vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax eftir kosningar og hefja viðræður í júní. Hún fékk heldur betur stuðning við málstaðinn í Silfri Egils í gær. Orðið "kreppuklám" kom upp í hugann þegar hlustað var á makalausan málflutning Benedikts Jóhannessonar. Þetta orð hefur verið notað um þá sem reyna að vera krassandi í málflutningi sínum og mála skrattann á vegginn. Maðurinn klæmdist út í eitt. 

Ef marka má orð Benedikts er ESB gerspilltur klúbbur þar sem klíkuskapur og fyrirgreiðsla skipta öllu máli. Ekki lögin og reglurnar. Það þarf að hafa samband við "réttu mennina" til að redda málunum, nokkuð sem í daglegu tali er kallað spilling. Svona svipað og þegar bankar voru einkavæddir á Íslandi og "réttu mennirnir" máttu kaupa.

Það sem Benedikt sagði m.a. var: 

Svíar eru að taka við forsæti í ESB og við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Finninn Olli Rehn er stækkunarstjóri ESB, við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Maltverjar fara með sjávarútvegsmál. Þeir eru smáþjóð eins og við svo við verðum að flýta okkur inn á meðan. Annars gætu kannski Spánverjar tekið við og við óttumst þá.

Hvers konar bull er þetta?

Er Benedikt í alvöru að segja að þjóðerni kommissara í Framkvæmdastjórn ESB skipti einhverju máli? Að það sé geðþótti embættismanna sem ráði úrslitum en ekki lög og reglur? Hvaða rugl er þetta í manninum? Nema að hann sé að upplýsa okkur um að grunnsamningar Evrópusambandsins séu bara upp á punt en stóru strákarnir í Brussel ráði. 

Er þetta kannski ekki bull?

Ef Benedikt er ekki að bulla er ástæða til að hafa verulega áhyggjur af því sem hann sagði um sjávarútvegsmál. Svo miklar að Íslendingum er hollast að halda sig eins langt í burtu frá ESB og mögulegt er. Það hefur verið margítrekað að Íslendingar muni sitja einir að veiði í lögsögu sinni þó að við göngum inn og því sé ekkert að óttast. Svo kemur þessi Benedikt og segir að við þurfum að flýta okkur því annars gæti spænskur kommissar tekið við sjávarútvegsmálum!!!

Óttast hvað?

Að spænskum útgerðum verði þá úthlutað veiðiheimildum við Ísland? Geta þeir þá tekið geðþóttaákvarðanir til að hygla spænskum útgerðum? Verða allar reglurnar sem búið er að hamra á ógildar um leið og Spánverjar taka við?

 

Þetta er hræðsluáróður af síðustu sort. Sannkallað kreppuklám. Það er í samræmi við Moggagrein Benedikts þar sem hann setur fram dómsdagsspá í sjö tölusettum liðum. Segir m.a. að núna vilji enginn lána Íslendingum peninga, en lítur framhjá að það gildir um önnur lönd líka, um allan heim. Það er kreppa sem teygir sig til allra heimshorna. Svo segir hann að við veðum fátæk þjóð í höftum ef við flýtum okkur ekki inn í ESB á meðan "réttu mennirnir" ráða. Svo spáir hann "seinna hruni" til að gera þetta verulega flott (líklega misskilið eitthvað það sem Robert Wade sagði í nóvember). 

Auðvitað er þetta krassandi, enda rataði greinin bæði á visir.is og eyjan.is. Djúsí kreppuklám vekur meiri viðbrögð en málefnaleg umræða. Klámið selur. 

Nú er stutt í kosningar og kannski eiga fleiri eftir að nota sömu meðöl. En í augnablikinu fær Benedikt að njóta þess að vera "Klámhundur ársins" í kreppumálum, hingað til.

 


mbl.is ESB-viðræður í júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband