Evran, fíbbl og atvinnuleysi

Ekki get ég séð að upptaka evru í samvinnu við AGS sé betri en upptaka evru með inngöngu í ESB. En það er einfaldlega óhjákvæmilegt að atvinnuleysi mun aukast á Íslandi við inngöngu í ESB og upptöku evru. Þetta útskýrir Eiríkur Bergmann prýðilega í svari sem Illugi Jökulsson birtir á DV-blogginu sínu í gær.

Eiríkur Bergmann, sem er í Samfylkingunni og dósent á Bifröst, er "einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum" að sögn Illuga, sem jafnframt bendir á að þurfi að gæta að fræðimannsheiðri sínum "svo varla fer hann að ljúga einhverju að okkur!"

Kíkjum aðeins á hvað einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum segir um málið.

Inngangan sjálf hefur ekki áhrif á atvinnustig. Atvinnuleysi er mismunandi eftir löndum innan ESB og Ísland er þegar virkur þátttakandi á innri markaði ESB. Þess vegna hefur innganga ekki áhrif á atvinnustig, ekki freka en á hitastig á Fróni.

     "Á hinn bóginn; ef Ísland myndi einnig taka upp evru ..."

Hægan, hægan!!

Hvað á hann við með EF? Það fer ekki framhjá neinum að evran er stóra markmiðið í ESB stefnu Samfylkingarinnar. Til þess er leikurinn gerður. ESB aðild er ítrekað kynnt sem "stefna í peningamálum". Hvað um það, höldum áfram með svarið.

Á hinn bóginn; ef Ísland myndi einnig taka upp evru, þá þarf að vera hægt að mæta áföllum í efnahagslífinu með nafnlaunalækkunum í stað þess að færa raunlaun niður í gegnum verðbólgu eins og jafnan hefur verið á Íslandi.

Án svoleiðis sveigjanleika, að geta lækkað nafnlaun í frjálsum samningum á vinnumarkaði, gæti evran mögulega haft í för með sér aukið atvinnuleysi.
(leturbreyting mín)

Getur einhver séð fyrir sér að laun á Íslandi (eftir kreppu) verði lækkuð í frjálsum samningum á vinnumarkaði? Það þarf ekki annað en að skoða viðbrögðin við orðum Katrínar Jakobsdóttur um daginn, um launalækkun sem nauðvörn í kreppu.

evra.jpgÍmyndum okkur niðurskuð á kvóta eða bara sýkta síld. Forsætisráðherra tilkynnir að þar sem við höfum ekki lengur okkar eigin gjaldmiðil og engin tök á að laga gengið að breyttum aðstæðum hafi stjórnvöld áveðið - í fullri samvinnu við öll launþegasamtök í landinu - að lækka laun um 7%. Allir segja já, já og eru sáttir.

Það þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem komnir eru yfir fermingu, að þetta myndi aldrei ganga. Sátt um lækkun launa með handafli, sem eðlilegar aðgerðir í efnahagsstjórn! Aldrei. Samdrátturinn kæmi fram í atvinnuleysi eins og reynsla fjölmargra ESB þjóða sýnir. Staða þeirra er vissulega misjöfn, en sérstaða Íslands í atvinnumálum er slík að hætt er við að atvinnuleysisdraugurinn sæti sem fastast hér á Fróni.

Í kosningaloforðum Samfylkingar er talað um að skapa ný störf, koma öllum vinnufúsum höndum til starfa og útrýma atvinnuleysi. Um leið er talað um að ganga í ESB og taka upp evruna sem leiðir af sér aukið atvinnuleysi. Þetta rímar ekki vel saman.

Í lokin á samantekt Eiríks Bergmann kemur svo skýring í anda Árna Páls Árnasonar, sem telur að erfiður efnahagur evru-landanna sé ekki evrunni að kenna, heldur vegna þess að fólk kjósi yfir sig fífl. Einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum tekur í sama streng þegar hann útskýrir hvers vegna evran leiði til atvinnuleysis:

En þá er líka við lélega stjórnmálamenn að sakast, en ekki gjaldmiðilinn, - sem ætti samkvæmt reynslu annarra ríkja að auka til muna aga í innlendri hagstjórn.

Þá vitum við það. Ef við erum með íslenska krónu og allt fer í steik, er það krónunni að kenna. Ef við erum með þýsk/franska evru og allt fer í steik, er það stjórnmálamönnunum að kenna. Eða öllu heldur kjósendum sem eru svo mikil fífl og kjósa yfir sig fífl.

Þó að Eiríkur Bergmann sé einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum get ég bara ekki samþykkt að í Portúgal, á Ítalíu, Írlandi, Grikklandi, Spáni og mörgum öðrum ESB löndum séu eintóm fífl við stjórn. Þessi lönd glíma, eins og Ísland, við mikla erfiðleika í efnahagsmálum. Það er nærtækara að líta á það sem þessi lönd eiga sammerkt í peningamálum:  Þau eru öll með gjaldmiðil sem þau hafa enga stjórn yfir. Pikkföst í handjárnum evrunnar.

Sem sagt:
Ef evran kemur til Íslands þá fer atvinnuleysið aldrei. Einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum hefur útskýrt þetta prýðilega.


mbl.is Vilja upptöku evru í samvinnu við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband