Að flytja (út) vald

Undanfarna tvo til þrjá áratugi hefur valddreifing verið fast stef í íslenskri stjórnmálaumræðu. Að færa valdið nær fólkinu. Sveitarfélög hafa verið sameinuð í öllum landshlutum til að styrkja sveitarstjórnarstigið og verkefni færð frá ríki til sveitarfélaga. Svo eru hverfisráð í Reykjavík angi af sama meiði.

Þetta er gert í þeirri trú að það sé slæmt fyrir samfélagið að færa of mikil völd á fáar hendur. Réttilega. Í sama takti er umræðan um endurreisn Alþingis, sem nú er sagt afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina. Of mikil völd séu færð framkvæmdavaldinu. Meira að segja beðið um stjórnlagaþing og stjórnarskrárbreytingar til að færa mál til betri vegar.

Það er örugglega rétt að því fjarlægara sem valdið er því verra er það fyrir samfélagið. Kerfið þyngist og skilvirknin minnkar. Skilningur á þörfum þegnanna minnkar. Nálægð við þegnanna er því alltaf af hinu góða. Þess vegna er það kostur að hér á landi er valdið hvorki fjarlægt né andlitslaust.

Nú vilja sumar skipta um kúrs og sigla í vitlausa átt.

Flytja valdið úr landi.

Það eru þeir sem vilja ganga í Evrópuríkið og flytja vænan skerf af bæði löggjafar- og framkvæmdavaldi til Brussel. Þar er þingið afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina (EU Commission), svona kerfi sem við viljum losna við hér heima. Helst með breytingu á stjórnarskrá. Völdin þar eru að mestu hjá ríkisstjórninni og fjölmörgum vinnuhópum hennar, hvað svo sem reglur og glansrit segja. Þessi ríkisstjórn verður framvegis skipuð 18 mönnum (eru núna 27) og þeir eru ekki kjörnir í beinum lýðræðislegum kosningum. Tengslin við borgarana eru engin.

Þegar valdið fjarlægist minnka um leið áhrif borgaranna á eigin velferð. Það að afsala sér valdi í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar mun alltaf leiða til skaða af einhverju tagi. Það gerist kannski ekki strax. Hnignunin verður ekki eins mikil og í sjávarplássunum í kringum landið og hún gerist ekki jafn hratt. En það verður hnignun. Hún bara læðist aftan að okkur.

Fari svo að menn nái að misnota kreppuna til að draga Ísland inn í Evrópuríkið, mun það draga bæði framtak og mátt úr samfélaginu. Hægt og hægt. Svo hægt að það tekur enginn eftir því, ekki svona dags daglega. Þegar fram líða stundir munu börn þeirra sem nú eru á grunnskólaaldri sitja uppi með skaðann. Og afkomendur þeirra líka.

Ef til væru patentlausnir þá væri engin kreppa. Innganga í Evrópusambandið getur aldrei orðið redding á kreppunni. Hún myndi í fyllingu tímans valda enn meiri skaða en það að taka upp erlendan gjaldmiðil án þess að hafa efni á því. 


Bloggfærslur 6. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband