Flokkurinn eða þjóðin

Það kemur æ betur í ljós hvílík mistök það voru að sækja um aðild að ESB á meðan IceSave var enn óklárað. Umsóknin hefur orðið að vopni í höndum Breta, meira að segja svo að Jóhanna Sigurðardóttir kvartaði undan því í stefnuræðu sinni. Þessi ótímabæra umsókn hefur skapað vonda umgjörð um IceSave og gert það mun erfiðara viðfangs en ella.

Það voru hræðileg mistök hjá Steingrími að láta Jóhönnu og Össur þvinga sig í þessa umsókn svo löngu áður en hún gat með nokkru móti talist tímabær.

Það hljómar alltaf jafn fáránlega þegar talað er um að afdrif frumvarpsins (sem er um að skemma IceSave lögin frá því í sumar) séu í höndum tveggja eða þriggja þingmanna. Það eru 63 kjörnir fulltrúar á þingi og þeir eiga allir að greiða atkvæði af skynsemi og með hagsmuni þjóðar sinnar að leiðarljósi. Líka Samfylkingarmenn, þótt engin virðist gera kröfu til þeirra um það.

Í viðtengdri frétt er sagt að Ásmundur Einar Daðason muni líklega styðja frumvarpið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að formaður Heimssýnar láti þvinga sig til þess að skrifa upp á þennan aðgöngumiða Samfylkingarinnar að Evrópuríkinu.

Hvort er mikilvægara, ein ríkisstjórn eða framtíð þjóðarinnar? Einn stjórnmálaflokkur eða lífskjör okkar allra næstu áratugina?

Ég spyr vegna þess að í fréttinni er sagt að Ásmundur Einar muni styðja nýja skemmdar-frumvarpið um IceSave "til að ekki verði sundrung innan Vinstri grænna". Þegar menn líta til baka eftir þrjátíu ár verður það algjört aukaatriði hvort það varð sundrung í einhverjum stjórnmálaflokki árið 2009. Eða hvort vinstri stjórnin féll í janúar eða júní. Á næsta ári eða þarnæsta. Það væri algjörlega galið að segja já við skemmdar-frumvarpinu á þessum forsendum.

Í fréttinni segir líka "fáir vilja bera ábyrgð á því að hafa fellt vinstri stjórnina". Því spyr ég aftur, hvort skiptir í raun og veru meira máli, ein ríkisstjórn eða framtíð þjóðarinnar og lífskjör?

 


mbl.is Átök innan Vinstri grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband