2.12.2009 | 12:58
Þingmaður gerist sandkassabloggari ... á einu augabragði
Sorglega oft sér maður upphrópanir sem eiga lítið skylt við málefnalega umræðu. Það er m.a. áberandi í ESB umræðunni undanfarna mánuði. Menn sem eru á öndverðum meiði kalla hverjir aðra illum nöfnum og hafa upp ásakanir af ýmsum toga. Gerast menn sekir um slíkt í herbúðum beggja.
Við, sem erum á móti því að Ísland verði hluti af Evrópuríkinu, erum iðulega kölluð einangrunarsinnar eða þröngsýnir og sjálfumglaðir þjóðrembingsmenn og oft sögð ganga erinda fyrir einhverjar tilteknar klíkur.
Sigmundur Ernir Rúnarsson heitir maður og er þingmaður Samfylkingarinnar. Hann hefur ort ljóð, ritað bækur, lesið sjónvarpsfréttir og stjórnað eigin þáttum. Nýjasta þátt sinn kynnti hann með upphrópunum sandkassabloggarans. Hér eru dæmi úr fádæma hallærislegri færslu hans.
Afdalasinnaðir einangrunarsinnar mega eiga sín sérhagsmunarök og sosum tími kominn til að þeir finni til tevatnsins.
Ekkert verkefni er mikilvægara nú um stundir í stjórnmálum en að tengja Ísland umheiminum.
Að fletta ofan af lygavef afdalamennskunnar um ESB-hætturnar.
Ég ætla að byrja lokaorrustuna með Eiríki Bergmann ... og afhjúpa helstu rökleysur afdalasinna.
Það er lítið við því að segja að óbreyttir í hópi bloggara stundi upphrópanir. En þegar þingmaður fer í sandkassaleik gegnir öðru máli. Maður sem hefur boðið sig fram og verið kjörinn til að sitja á löggjafarsamkomu þjóðarinnar á að gera meiri kröfur til sjálfs sín en þetta.
Og nú ætlar þingmaðurinn Sigmundur Ernir að láta menn finna til tevatnsins"; þ.e. ná sér niðri á þeim sem ekki eru á sama máli. Fyrir hvað þarf Sigmundur Ernir að hefna?
Sá sem býður upp á umfjöllun undir þessum formerkjum gengisfellir sjálfan sig í allri umræðu um málið. Jafnvel þótt hann sér þingmaður.