Malta, Ísland og ESB (3)

„Möltubúar eru sannfærðir um að Íslendingar geti lært af reynslu sinni. Bæði um hvernig hægt er að ná hagstæðum samningum við embættismannaveldið í Brussel og hvernig smáþjóð lætur til sín taka á meðal stórþjóðanna í Evrópusambandinu."

Þannig voru lokaorðin í fréttaskýringu Fréttaauka RÚV um Möltu og Evrópusambandið. Þetta er þriðja og síðasta færslan um þátt Fréttaaukans. Fyrsta færslan er hér og önnur hér.


Viðmælendur Fréttaauka RÚV

Lawrence Gonzi forsætisráðherra staðhæfir að upptaka evrunnar hafi verið besta vörn atvinnulífsins og hún geri mönnum kleift að glíma við óróleika í efnahagslífinu. Þetta telur hann ljóst eftir að hafa verið með evruna í eitt ár og tíu mánuði.

Lawrence GonziHafa verður í huga að þegar Gonzi forsætisráðherra er spurður um ágæti ESB eru svör hans jafn fyrirsjáanleg og ef Hannes Hólmsteinn yrði spurður um hvort Davíð Oddsson hafi staðið sig vel eða illa í embætti. Eða ef Össur Skarphéðinsson spurður um rök með eða á móti ESB aðild Íslands.

Ef Gonzi gæfi ESB eitthvað annað en góða umsögn væri hann um leið að gefa sjálfum sér falleinkunn. Það er of langt mál að rekja þau miklu átök sem að baki eru frá umsókninni 1990 til inngöngu 2004. Átakasagan nær miklu lengra aftur og má lesa hana hér.

Kurt Sansone blaðamaður sagði: „Styrkur Möltu eykst við aðild." Ekki þarf að draga það í efa, enda sterkustu rök Maltverja fyrir inngöngu að marka sér stað meðal þjóðanna og undirstrika að þeir séu evrópskir (sjá hér: Spurning um sjálfsmynd).

Hann sagði líka: "Möltubúar notfæra sér framkvæmdastjórn ESB til að veita stjórnvöldum aðhald." Hvaða tök það eru sem maltverskir kjósendur hafa á Brusselvaldinu er mér hulin ráðgáta. Ef ný reglugerð er samþykkt í Brussel verður hún sjálfkrafa að lögum í öllum aðildarríkjunum, líka Möltu. Það er fjarstýring, ekki aðhald.

Lino Briguglio, hagfræðiprófessor, sagði „þótt þjóðin sé fámenn þarf hún að taka upp jafn margar tilskipanir og Þjóðverjar" og þess vegna starfa margir Möltubúar í Brussel. Hann telur, eins og forsætisráðherrann, að Malta hafi náð góðum samningi, en nefndi ekkert dæmi um ágæti hans.


Getum við lært af reynslu Möltubúa?

„Ef sett eru fram öflug rök, studd tölum og rannsóknum, þá nær maður sínu fram í rökræðum" sagði Lawrence Gonzi forsætisráðherra og lagði áherslu á vandaðan undirbúning. Helstu ráðin sem fram komu voru mikilvægi þess að hafa réttu mennina í framvarðasveitinni. Bæði að hafa gallharða samningamenn og svo öfluga fulltrúa í Brussel að samningaferlinum loknum.

Um þetta þarf enginn að efast. En þetta hefur ekki dugað Möltu.

Malta off seasonHvað sem mönnum kann að finnast um Evrópusambandið þá stendur það sig mjög vel að einu leyti. Það gefur út ógrynni af upplýsingum og á netinu er hægt að sjá reglugerðir, tilskipanir og samninga. Ef rýnt er í samninga Möltu þá er ekkert merkilegt við þá. Ekkert sem gerir þá sérstaka eða góða. Hástemmdar lýsingar á glæsilegum samningi eru jafn innantómar og loftbóla íslenska efnahagsundursins.

Það sem Malta „fékk" er að halda reglum um íbúðarhúsnæði, óbreyttum lögum um fóstureyðingar, reglur um báta og veiðarfæri innan 12 mílna landhelgi og eitthvað annað sem ég man ekki hvað var.

Það er eins og Maltverjar telji það „glæsilegan samning" að hafa smíðað aðlögunarreglur um ýmis atriði. Þau gætu verið 70, ég taldi það ekki. En það eru bara aðlögunarreglur, sem allir fá. Þær eru ekki um hvort heldur hvenær nýtt aðildarríki tekur að fullu upp regluverk ESB. Hvort það taki eitt ár, þrjú ár eða fimm ár.

Það er eitt og aðeins eitt í boði við inngöngu í ESB: Evrópusambandið.


Jörðin er flöt. Af því bara!

Ef Össur og Samfylkingin hefðu gert einn þátt um efnið og félagar í Heimssýn annan hefðu orðið til tveir ólíkir þættir. Þegar RÚV býr til þátt ætti hann að vera einhvers staðar þar á milli. Hlutlaus og áreiðanlegur. RÚV hefur boðað frekari umfjöllun um Evrópusambandið. Þetta er viðkvæmasta utanríkismál í sögu lýðveldisins og mjög umdeilt. Því skiptir miklu máli að RÚV standi vaktina af fagmennsku, njóti trausts og miðli vönduðum hlutlausum upplýsingum.

RUVSú mynd sem Fréttaaukinn dró upp var að Matverjar væru hæst ánægðir og sáttir með lífið eftir inngöngu. Efnahagurinn og evran eru stór þáttur í ESB mynd Maltverja. Samt sýnir könnun sem Ein News Service birti á mánudag að þriðji hver Maltverji hefur ekki orðið var við efnahagsbata (hér, áskrift). Hagtölur sýna ekki batamerki.

Beinharðir peningar streyma til Möltu, var sagt. Það rímar ekki við frétt New Europe um að tvö síðustu ár hafa greiðslur Möltu til ESB verið hærri en mótteknir styrkir (hér). Fréttir sem finna má á maltverkum, breskum og öðrum vefmiðlum flytja ekki sömu tíðindi og Fréttaaukinn.

Þá virðist sem litið sé framhjá atriðum sem ekki teljast jákvæð fyrir ESB aðildina en hamrað á einum pólitíkus sem ekki vildi veita viðtal. Til viðbótar við það sem þegar hefur verið nefnt kom ekki fram að verðbólga hækkaði við upptöku evru, eða að tekjur eru enn aðeins 74,5% af meðaltekjum sambandsins. Skautað framhjá vanda vegna mikillar fjölgunar ólöglegra innflytjenda, sem menn telja erfiða hliðarverkun aðildar (hér) og ekki nefnt að undanfarin þrjú ára hafa 30 þúsund manns á Möltu þurft að treysta á matvælaaðstoð (hér) þrátt fyrir glæsilegan samning, svo dæmi séu nefnd. RÚV féll á prófinu. Big time.

 

Við skulum vona að nýskipuð framvarðasveit Íslands standi sig betur en sú maltverska. Við þekkum af reynslunni að samningur verður ekki góður við það eitt að vera kallaður "glæsilegur samningur". Ekki frekar en að jörðin verði flöt bara af því að einhver segir það. Íslenska nefndin þarf að standa sig virkileg vel.

Síðan þarf íslenska þjóðin að gera enn betur og fella þessa vitleysu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

 


mbl.is Samninganefnd vegna ESB skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband