3.11.2009 | 20:10
Malta, Ísland og ESB (2)
Munu þjóðareinkennin hverfa inn í gráan skrifræðisheiminn í Brussel"? Þetta er færsla númer tvö í tilefni af umfjöllun Fréttaauka RÚV undir yfirskriftinni: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu?
Fyrsta hlutann má sjá hér.
Að veifa ölmusum
Fjárhagsleg aðstoð fékk nokkuð pláss í þættinum og hafa beinharðir peningar streymt til Möltu". Guido Demarco, fyrrverandi forseti, var ánægður með styrkina. Malta mun fá um 215 milljarða króna á árunum 2007-2013. Peningarnir renna í vegaframkvæmdir og ýmsa styrki.
Getum við lært þetta af Möltu? Er hægt að freista Íslendinga með tilboði um tímabundna styrki, bætur og ölmusur? Virða skal Maltverjum til málsbóta að þjóðartekjur á mann voru/eru helmingi lægri á Möltu en á Íslandi.
Sjávarútvegur
Samanburður á sjávarútvegi á Íslandi og Möltu er erfiður því fiskveiðar skipta mjög litlu fyrir þjóðarhag Möltu og veiðarnar eru nánast bundnar við litla línuveiðibáta."
Punktur. Þetta var allt sem sagt var um sjávarútveg í þættinum.
Ítrekað hafa menn nefnt Möltu sem dæmi um ríki sem fékk undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB, sem er alls ekki rétt. Þar sem þátturinn átti að vera um lærdóm Íslendinga af reynslu Möltu, hefði mátt nefna þessa staðreynd: Malta er ekki með undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB.
Einungis fiskibátar sem eru innan við 12 metrar að lengd mega veiða innan 12-25 mílna og er það byggt á verndarsjónarmiðum. Ákvæðið felur hvorki í sér undanþágu frá reglunni um jafnan aðgang né undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB.
Heildarafli á Möltu hefur verið 850 til 1.050 tonn á ári, sem er eins og einn íslenskur netabátur með þriggja manna áhöfn. Við getum ekki lært af reynslu Möltubúa af þessum málaflokki.
Gangandi vegfarendur
Í þættinum er rætt við nokkra gangandi vegfarendur sem "virðast hæst ánægðir" að sögn fréttamanns.
"Við erum smá og getum ekki staðið ein" sagði ung kona, svo þessi minnimáttarrök eru ekki aðeins til á Íslandi. Hún var ánægð með vegabætur sem kostaðar voru af ESB. Annar viðmælandi talaði um þrýsting á stjórnvöld og skarpari reglur.
Eldri maður var sáttur við aðild að innri markaðnum (european market) og að ekki þyrfti að fara í banka og skipta gjaldeyri á ferðalögum erlendis. Það "vandamál" var úr sögunni hjá Íslendingum með upptöku greiðslukorta, sem eru gjaldgeng hvar sem er í heiminum.
Kona á miðjum aldri var ekki eins hæst ánægð og hinir. Hún hafði áhyggjur af efnahagsmálum og óöryggi í atvinnumálum en var viss um að ástandið myndi skána. "Við vissum að þetta yrði erfitt, en fyrir börnin okkar er þetta betra". Ekki kom fram hvað verður betra eða hvernig það batnar.
Muscat og Moggagrein
Joseph Muscat heitir maður og er formaður Verkamannaflokksins á Möltu. Hann ritaði grein í Morgunblaðið 2002 og hvatti Íslendinga til að standa utan ESB. Muscat vildi ekki ræða við Fréttaaukann og fór undan í flæmingi" þegar haft var uppi á honum.
Muscat talaði fyrir málstað sem varð undir fyrir sex árum. Nú, eftir fimm ár í ESB og tvö ár með evruna veit hann að það verður ekki aftur snúið. Hann þarf að tileinka sér pólitíska æðruleysisbæn og gera það besta úr stöðunni, enda hefur flokkur hans breytt um stefnu. Það var samt slakt hjá honum að veita ekki viðtal.
Og það er óneitanlega sérstakt að maðurinn sem var ekki talað við fékk meiri umfjöllun í þættinum en landbúnaður og sjávarútvegur samanlagt.
Framhald ...
Í þriðju og síðustu færslunni um Möltu, Ísland og ESB verður litið á viðmælendur Fréttaaukans, rýnt í heildarmyndina og reynt að svara spurningunni: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu?
Svo, niðurlag í næsta bloggi ...
Evrópumál | Breytt 4.11.2009 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)