20.11.2009 | 00:42
Lítt þekktir leiðtogar
Þegar breska barónessan Catherine Ashton var skipuð viðskiptaráðherra ESB í október í fyrra töluðu sumir Evrópuþingmenn um það sem "móðgun við Evrópuþingið" að skipa einstakling sem hafði enga reynslu af viðskiptamálum.
Í Bretlandi lýstu menn furðu sinni á því að lítt þekkt kona, sem aldrei hefur verið kosin af neinum, skyldi vera skipuð í stöðuna. Breska þingið fékk ekki að fjalla um skipan hennar, en Ashton er þó sögð hafa staðið sig prýðilega í starfi, þótt nýliði sé.
Gordon Brown þurfti, að ósk Barrosos, að tilnefna konu í starfið, þegar Peter Mandelson fékk að snúa aftur heim til Bretlands í fyrra. Hann var þá búinn að afplána fjögurra ára útlegð í Brussel. Þangað fór hann eftir að hafa neyðst til að segja af sér embætti í annað sinn (hér) og settist beint í ráðherrastól.
Eftir að Herman Van Rompuy, forsætisráðherra Belgíu, var valinn í hið nýja embætti forseta Ráðherraráðsins, þurfti að gæta jafnvægis. Hann er hægrisinnaður karl frá litlu ríki. Það þurfti því vinstri sinnaða konu frá stóru ríki í hitt nýja valdaembættið. Barónessan breska varð fyrir valinu, þrátt fyrir að hafa enga reynslu af utanríkismálum. Þar vó þungt að gæta þurfti að kynjahlutföllum.
Núna, eftir ársdvöl í Brussel, er Ashton barónessa að taka við einu af valdamestu embættum í Evrópu, sem verður til 1. desember þegar Evrópuríkið verður formlega stofnað. Þar mun hún starfa í friði fyrir kjósendum, í anda "lýðræðisins" sem praktíserað er í Brussel.
Þetta er vissulega forvitnileg byrjun í hinu nýja Evrópuríki, að skipa tvo lítt þekkta einstaklinga í tvö ný og mjög valdamikil embætti. Varla þarf að taka fram að það var handvalið í bæði embættin fyrir luktum dyrum.
![]() |
Van Rompuy fyrsti forseti ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)