2.11.2009 | 20:59
Malta, Ísland og ESB (1)
"Risavaxið skrifræðisbatterí"
"Innan fárra vikna heldur hópur íslenskra embættismanna til Brussel til samninga við Evrópusambandið. Þeirra bíður það verkefni að berjast fyrir hagsmunum smáríkis og kljást við risavaxið skrifræðisbatterí Evrópusambandsins."
Þannig hófst inngangur Fréttaaukans að fréttaskýringu um Möltu og ESB. Yfirskrift hennar var: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu? Ísland og Malta eiga það sammerkt að vera fámenn eyríki í útjaðri Evrópu, sem bæði fengu sjálfstæði á liðinni öld; Ísland 1944 og Matla 1964. Það var margt forvitnilegt í þessari 11 mínútna fréttaskýringu.
Spurning um sjálfsmynd
Það sem helst stendur uppúr eru þau rök sem virtust sterkust fyrir ESB aðild Möltu. Þau snúa að sjálfsmynd þjóðarinnar og stöðu hennar í samfélagi þjóðanna. Fyrrverandi forseti landsins vill tryggja að framtíða maltverskra barna verði evrópsk framtíð.
Möltubúar virðast telja aðild að sambandinu tryggja að enginn telji þá smáríki við strendur Norður Afríku, heldur sé öllum ljóst að þeir séu evrópskir í húð og hár.
Möltubúar vilja tryggja sjálfsmynd sína og stöðu í heiminum með aðild að Evrópusambandinu.
Þessi rök eru bæði sterk og skiljanleg. Maltverjar vilja taka sér stöðu sem evrópsk þjóð til framtíðar. Íslendingar þurfa hins vegar ekki að "sanna" að þeir séu evrópskir. Þeir eiga djúpar evrópskar rætur, hafa tekið þátt í evrópsku samstarfi í fjölda ára og norrænni samvinnu svo lengi sem elstu menn muna.
Þótt þessi ágætu rök kunni að vega þungt á Möltu eru þau ekki veigamikið dæmi um eitthvað sem "Íslendingar geti lært af reynslu Möltubúa" svo vísað sé í yfirskrift fréttaskýringarinnar.
"Landbúnaður hefur átt erfitt uppdráttar"
Landbúnaðurinn fékk ekki nema 22 sekúndur í þættinum. Þó kom fram að veran í ESB hefur bitnað hart á bændum. Margir hafa gefist upp en "þeir framleiðendur sem eftir eru hafa margir hverjir sameinast".
Landbúnaðarkaflinn er langstærstur í viðaukanum við aðildarsamning Möltu. Tvær aðlögunarreglur skera sig úr og gilda lengur en aðrar. Báðar varða maltneska styrki til landbúnaðar. Þá skal fella niður; annars vegar á 7 árum vegna kjöts og dýraafurða og hins vegar á 11 árum vegna grænmetis, ávaxta og kornræktar.
Ekki var rætt við fulltrúa bænda í þættinum eða reynt að áætla hversu margir bændur verða enn eftir þegar þessum aðlögunartíma lýkur.
Kjöt hefur hækkað í verði en vín og ostar lækkað. Hækkun á kjötverði skýrist af því að nú er bannað að flytja inn kjöt frá Nýja Sjálandi og flutt inn dýrara kjöt frá ESB löndum í staðinn.
Miðað við þá útreið sem maltneskur landbúnaður fær geta Íslendingar lært það af reynslu Möltu að tryggja hag bænda betur en þeim tókst, eða standa utan sambandsins ella.
Umhverfismálin vega þungt
Eftir að Malta gekk í ESB hafa umhverfismál komist á dagskrá. Þetta má glöggt sjá í viðauka (Annex II) við aðildarsamning Möltu. Þar er umhverfiskaflinn næst stærstur, aðeins landbúnaðarkaflinn er stærri. Fram kom að þrýstingur hafi líka verið frá almenningi um að gera umhverfismálum hærra undir höfði.
Á Íslandi hefur verið rekið Umhverfisráðuneyti síðan 1990 og "stórstígar endurbætur verið gerðar á löggjöf og stefnumótun í umhverfismálum". Mengunarvarnir, endurvinnsla og önnur umhverfismál eru því í allt öðrum farvegi hér en var á Möltu árið 2003. Ísland þarf ekki að ganga í ESB til að taka upp flokkun sorps eða önnur umhverfisúrræði.
Umhverfismál eru sögð eitt helsta dæmið um það sem breyst hefur til hins betra á Möltu, en geta ekki talist dæmi um eitthvað sem "Íslendingar geti lært af reynslu Möltubúa".
Framhald ...
Margt fleira var áhugavert í þættinum, sem verður að bíða næstu færslu. Svo sem um viðhorf almennings, fjárhagslega aðstoð, um svör viðmælenda, manninn sem neitaði viðtali, um evruna og efnahaginn og um sjávarútveg.
Út úr öllu saman kemur svo einhver niðurstaða, sem ætti að innihalda svar við yfirskrift þáttarins: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu?
Svo, framhald í næsta bloggi ...
Evrópumál | Breytt 3.11.2009 kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)