2.10.2009 | 13:02
Það verður ALDREI kosið aftur
LÝÐRÆÐIÐ verður lagt niður í dag. Endanlega. Þá fá þegnarnir stjórnarskrá sem þeir vilja ekki og skilja ekki. Stjórnarskrá sem leiðtogarnir treysta "venjulegu fólki" ekki til að kjósa um. Þar með er tryggt að þegnar Evrópuríkisins munu framvegis aldrei fá að kjósa um neitt sem skiptir máli.
Leifar lýðræðisins verða formlega þurrkaðar út þegar Írar verða þvingaðir til að samþykkja stjórnarskrá ESB sem þeir felldu í fyrra. Áróðursmaskína ESB, vopnuð milljörðum frá Brussel, mun sjá til þess að Írar kjósi "rétt" í þetta sinn. Eins og þeir gerðu 2002. Kosningarnar í dag eru The vote to end all votes eins og eitt írskt blað orðar það.
Nú bíðum við eftir stefnuræðu Jóhönnu. Verður stefnan áfram sett á ESB af sama þunga? Við Íslendingar getum nefnilega kosið frá okkur lýðræðið, með því að ganga í Nýja ESB.
Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni 2005. Þá var skipt um nafn á henni "svo komast mætti hjá þjóðaratkvæði" eins og formaður stjórnarskrárnefndar ESB orðaði það svo pent. Á Írlandi fengu menn samt að kjósa og þeir höfnuðu stjórnarskránni frá Lissabon í júní 2008. Þess vegna eru Írar þvingaðir til að kjósa aftur í dag. Ef þú kýst ekki "rétt" í ESB ertu látinn kjósa aftur og aftur. Þetta er fáguð útgáfa af kosningasvindli.
En nú þurfa strákarnir í Brussel ekki að hafa áhyggjur af þessu lengur. Í dag verður Lissabon stjórnarskráin samþykkt og þar með er bundinn endi á lýðræði innan ESB í eitt skipti fyrir öll. Verður það gert hér líka?
Menn geta svo velt fyrir sér hversu heilbrigt "lýðræði" það er þar sem almenningi er ekki leyft að hafa skoðun á stjórnarskránni. Eftir daginn í dag er ekkert því til fyrirstöðu að breyta ESB úr sambandi 27 sjálfstæðra ríkja í Nýja ESB, sem er eitt sjálfstætt sambandsríki. Það er stefnan. Viljum við vera samferða Jóhönnu inn í Nýja ESB? Ekki ég.
![]() |
Jóhanna flytur stefnuræðu á mánudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)