15.10.2009 | 12:59
"Is the ice safe?"
Það er fljótlegt og einfalt að ná sátt í IceSave. Bara gefast upp, láta undan öllum kröfum Breta og borga allt sem þeir heimta. Enda er það í grunninn stefna ríkisstjórnarinnar í málinu, eins og upphaflega IceSave frumvarpið ber með sér. Blekkingarfréttir um að reikningurinn verði ekki nema 75 milljarðar eru af sama meiði.
Að ná réttlátri niðurstöðu þar sem farið er að lögum, er snúnara.
Menn geta velt fyrir sér hvernig málin hefðu þróast ef á Íslandi byggju 30 milljónir en ekki 320 þúsund. Hefðu Bretar dregið fram hryðjuverkalög úr vopnabúrinu þó svo að til staðar hafi verið önnur mildari úrræði sem áttu betur við? Hefðu þeir sett það sem skilyrði að Íslendingar afsöluðu sér rétti að fá skorið úr um ábyrgð að lögum? Hefðu þeir misnotað ítök sín í AGS? Hefðu þeir beitt ESB í málinu? Ábyggilega ekki.
Sá skaði sem Bretar hafa valdið með yfirgangi og fantaskap er örugglega meiri en nemur hinni meintu skuld Íslendinga. Þeir eiga að taka erlendar eignir Landsbankans og láta svo málið niður falla. Þær duga fyrir 90% af forgangskröfum, að sögn.
Að því búnu á að semja um bótagreiðslur Breta til Íslands. Þess í stað rær Norræna velferðarstjórnin að því öllum árum að reikna út hvað hægt er að pína íslenska skattgreiðendur til að borga Bretum næstu áratugina. Þetta er meira en lítið galið.
Í réttarríkjum á 21. öld á hnefarétturinn ekki að fá að ráða. Þótt Bretar séu 190-sinnum fleiri en við á það ekki að skipta máli. Sá sem hefur réttinn sín megin er aldrei minni máttar, ekki þar sem leikreglur samfélagsins eru virtar. Að ætla Íslendingum að borga nokkur hundruð milljarða í stríðsskaðabætur vegna Björgólfsfeðga og IceSave er hrein og bein sturlun.
![]() |
Berjast til að ná Icesave-sátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |