14.10.2009 | 18:41
Ef þú trúir því ...
Sem betur fer búum við Íslendingar ekki við þá ógn sem steðjar að ESB og lýst er í viðtengdri frétt. Hér er aldurssamsetningin hagstæðari og fæðingartíðnin hærri. Það eru því fleiri sem standa undir rekstri samfélagsins.
ESB er að breytast í elliheimili, lokað bakvið tollamúra. Samt er enn til fjölmennur hópur sem vill koma Íslandi þangað inn. Sumir vegna evrunnar, aðrir til að losna við spillingu og klíkuskap og enn aðrir bara af því að þeir eru kratar.
Ef þú trúir því að til að losna við spillingu þurfi að ganga í ESB, kynntu þér þá Ítalíu Berlusconis. Mafían þrífst enn þrátt fyrir áratugaveru í sambandinu.
Ef þú trúir því að við losnum við klíkuskap innan ESB, skoðaðu þá nýja frétt frá Frakklandi um skólastrák sem fékk yfirmannsstöðu í La Defense. Hann er sonur forsetans.
Ef þú trúir því að fámennið orsaki klíkuskap og spillingu, þá bendi ég á að Frakkar eru 63,4 milljónir og Ítalir 60 milljónir. Ætli sé einhver spilling í Kína?
Ef þú trúir því að aðild að ESB hefði forðað okkur frá bankahruni, kynntu þér þá bankahrunið á Írlandi, ástandið í Lettlandi og horfurnar í S-Evrópu.
Ef þú trúir því að ESB færi okkur hagvöxt og bætt lífskjör, kynntu þér þá sorglega sögu Nýfundnalands. Örlög okkar innan Nýja ESB gætu hæglega orðið þau sömu.
Ef þú trúir því að ESB færi okkur aukna hagsæld, kynntu þér þá kenningar Elinor Ostrom, nýkrýnds Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, um meðferð og nýtingu auðlinda. Þær mæla gegn inngöngu.
Ef þú trúir því að það sé lýðræði innan ESB, þá leggjum við ekki sama skilning í orðið lýðræði.
Ég trúi því að þessi kreppa gangi yfir eins og aðrar. Ég hef líka trú á íslensku þjóðinni, þrátt fyrir hrunið, að við getum lært af reynslunni og gert betur. Að það sé skynsamlegra að við förum sjálf með forræði eigin mála en að flytja löggjafarvaldið til Brussel.
![]() |
Fjölgun lífeyrisþega stærri vandi en kreppan í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2009 | 12:59
"Glæsileg niðurstaða"
Tvisvar á fáum mánuðum höfum við fengið "glæsilega niðurstöðu" í IceSave málið. Fyrst var það samningurinn 5. júní, svo var það gleðifrétt vikunnar um að aðeins 75 milljarðar féllu á íslenskan almenning.
Því miður reyndist hvoru tveggja rangt.
Hinn glæsilegi samningur var dæmdur ónýtur af Alþingi, eins og sjá má í lögunum um ríkisábyrgð (96/2009) þar sem settir eru fjölmargir fyrirvarar til að lágmarka tjónið. Gleðifrétt vikunnar þurfti síðan að víkja fyrir sannleikanum á innan við sólarhring.
Eftir hádegið í gær hafði rúv.is eftir Lárentsínusi formanni skilanefndar Landsbankans að það yrðu líklega 305 milljarðar sem féllu á þjóðina, sem er fjórfalt það sem gleðifréttin hermdi. Sjálfur giskaði ég á 405 milljarða í bloggfærslu í gær, sem ég tel enn miklu nær sanni ef aðrar forsendur standa óbreyttar.
Samt sem áður ákvað ég að prófa hvað þyrfti til þess að 90% draumaspá Steingríms og Landsbankans rættist. Eina leiðin til þess er að tæpur helmingur af eignum Landsbankans seljist á tveimur árum, en alls er reiknað með sjö árum til að koma eignunum í verð (til að forðast brunaútsölur). Ég gekk eins langt í bjartsýninni og ég taldi mögulegt.
Í töflunni hér að ofan er reiknað með að 35% af eignunum lækki höfuðstólinn á fyrstu tveimur árunum. Restin skipst nokkuð jafnt, þó þannig að aðeins standi eftir 11% síðast árið. Einnig er borin saman útkoman, eftir því hvort eignir dugi fyrir 80%, 90% eða 100% af forgangskröfum. Eins og sjá má eru það vextir sem bíta.
Þar sem ríkisstjórnin vill telja okkur trú um að eignir dugi fyrir 90% af forgangskröfum er sú lína rauðlituð. Í gærkvöldi birti svo Vísir.is frétt þar sem segir: "Enda þótt eignir Landsbankans, dugi fyrir öllum innistæðum af Icesave reikningunum, þurfa Íslendingar samt sem áður líklega að borga hátt í þrjú hundruð milljarða króna í vexti."
Þarna eru menn komnir skrefi nær sannleikanum, sem um leið gerir forsendur í töflunni hér að ofan of bjartsýnar. Það ber því að líta á niðurstöðurnar í ljósi þess. Einnig að hér er ekki talinn með kostnaður skattgreiðenda við uppgjör gamla og nýja bankans, aðeins rýnt í IceSave samninginn einan og sér.
Að reyna að telja almenningi trú um að við getum komist frá IceSave málinu af einhverri sanngirni, meðan byggt er á nauðasamningunum frá því í júní, er óábyrgt útópískt hjal. Séu öll málsgögn skoðuð getur engin niðurstaða talist "glæsileg" sem inniheldur greiðslur íslensks almennings til Breska ríkisins næstu áratugina. Meira um það í næstu færslu.
14.10.2009 | 12:38
ESB martröðin
Draumur Samfylkingarinnar er að verða að martröð íslensku þjóðarinnar.
Milljarðar á krossaspurningar í miðri kreppunni. Eftirgjöf í IceSave til að styggja ekki Brussel. Og Össur ennþá utanríkisráðherra.
Bara að Vinstri grænir hefðu nú verið jafn staðfastir og Vaclav Klaus, eins og þessi nýja frétt sýnir. Þá þyrfti ég ekki að sjá eftir að hafa kosið þá.
![]() |
Svör við ESB-spurningum að verða tilbúin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)