13.10.2009 | 13:06
EKKERT = kr. 326.530 milljónir
Auðvitað þarf að ljúka þessu Icesave máli, en það er ekki sama hvernig það er gert. Í gær kom frétt um að eignir Landsbankans dygðu fyrir 90% af forgangskröfum og að líklega myndu "aðeins 75 milljarðar" falla á ríkissjóð.
Svona málflutningur er, eins og ágætur maður orðaði það, að setja varalit á svínið til að gera það kyssilegra.
Með sömu röksemdafærslu þarf ríkissjóður ekkert að greiða ef eignir Landsbankans duga fyrir öllum forgangskröfum, 100%. En það er ekki svo.
Ef við þurfum "ekkert" að greiða verður reikningurinn aðeins 326,5 milljarðar. Já, aðeins 326.530 milljónir króna. Lánin, sem Bretar og Hollendingar vilja ríkisábyrgð á, bera 5,5% vexti, sem þessa dagana gerir um 100 milljónir á dag. Þau gufa ekki upp þótt varaliturinn sé dreginn fram.
Þetta gerir 34 til 47 milljarða á ári í átta ár. Það er nú allt núllið. **
Gangi draumaspá ríkisstjórnarinnar eftir, þannig að 90% höfuðstólsins greiðist með eignum Landsbankans, verður reikningurinn ekki minni en 405 milljarðar, sem er býsna mikið meira en 75 milljarðar. Það verður fróðlegt að sjá skýringarnar á nýju mati á eignum Landsbankans, sem nú er óvænt komið í 90% en var 83% í júní.
Það hlýtur að koma - mottóið er jú að allt eigi að vera uppi á borðum.
---------- ---------- ----------
** Í þessum útreikningi er miðað við að eignir mjatlist inn á höfuðstólin á sjö árum, mest í lok tímans. Og að fallist verði á nauðsamningana við Breta og Hollendinga. Einnig er miðað við gengi 5. júní, daginn sem nauðasamningarnir voru undirritaðir. Sé miðað við gengið í dag hækkar reikningurinn um litla 20 milljarða. Ekki er tekinn með annar kostnaður vegna uppgjörs gamla og nýja LÍ.
![]() |
Málin að komast á lokastig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)