31.1.2009 | 11:29
Ísland er hvalkjöt (í augum ESB)
Í gær talaði Olli Rehn af sér. Þá sagði þessi finnski stækkunarkommissar ESB að aðild Íslands yrði hvalreki fyrir Evrópuríkið og vill bjóða okkur upp á flýtimeðferð. Í orðabók Menningarsjóðs er orðið hvalreki útskýrt þannig:
hvalreki K 1 það að hval rekur á fjöru. 2 óvænt stórhapp: það er hvalreki fyrir málstaðinn.
Í dag fagna skoskir sjómenn hugsanlegri aðild Íslands.
Skotarnir telja að aðild Íslands myndi hafa áhrif á endurskoðun fiskveiðistefnu ESB og einnig hugsanlega opna aðgang breskra sjómanna að íslenskum fiskimiðum.
Er það hið óvænta stórhapp sem Olli var með í huga? Hvalrekinn!
Jafnvel þó Skotar fengju ekki að veiða hér við land sjá þeir möguleika á endurskoðun á fiskveiðistefnunni.
Þetta er á svipuðum nótum og Robert Wade talaði um á borgarafundi í Háskólabíói, þ.e. að nota Ísland sem múrbrjót eða tilraunadýr fyrir Noreg; að breyta "hinni skaðlegu fiskveiðistefnu ESB" eins og Wade orðaði það, svo að Norðmönnum hugnist þátttaka.
Það á ekki að innlima Ísland í Evrópuríkið til að nota það sem múrbrjót fyrir Norðmenn eða vopn fyrir Skota. Ísland á að gera það sem þjónar hagsmunum Íslendinga best og standa fyrir utan ESB.
Það er sama hversu góðir samningar nást um fiskveiðar eða "hvað er í boði". Framsal á fullveldi mun alltaf leiða til tjóns. Ef ekki strax, þá seinna. Það er einfaldlega ekki hægt að komast hjá því.
Kommissar Rehn vill bjóða Íslandi flýtimeðferð. Hann veit að það hefur aldrei neitt ríki gengið í ESB nema í krísu. Annað hvort pólitískri eða efnahagslegri krísu. Þess vegna vill hann hespa þetta af á meðan við erum í miðri kreppu og þjóðin enn dofin og sár í leit að skjótvirkri lausn.
![]() |
Skoskir sjómenn vilja að Ísland gangi í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)