13.1.2009 | 21:17
Hvað veit þessi Wade?
Á nokkrum dögum hef ég séð umfjöllun fjögurra hagfræðinga um leið út úr kreppunni. Tveir eru íslenskir og tveir erlendir. Allir hafa þeir eitthvað til málanna að leggja. Athyglisverður er munur á skoðun þeirra í gjaldmiðilsmálum.
Útlendingarnir tveir eiga það sameiginlegt að hafa varað við bankakreppu á Íslandi og fengið mikla gagnrýni fyrir. Nú, þegar þeir hafa reynst sannspáir, er leitað álits hjá þeim um framhaldið. Þetta eru Robert Wade, hagfræðingur frá Nýja Sjálandi sem kennir við London School of Economics og Carsten Valgreen fyrrverandi hagfræðingur hjá Danski Bank.
Robert Wade. Hann veit sitt hvað um stöðuna hér, enda hefur hann kynnt sér hana ágætlega og vert að kynna sér það sem hann hefur fram að færa. Helstu punktar úr ræðu hans um næstu viðbrögð eru þessir:
- Kalla saman nefnd erlendra sérfræðinga til rannsóknar og endurskipulagningar ríkisskulda.
- Kortleggja hvar peningarnir eru.
- Endurheimta orðsporið. Reka Davíð Oddsson.
- Forsætisráðherra biðjist afsökunar.
- Tryggja áframhaldandi atvinnu
- Verja lífeyrissjóðina (hægja á hruni þeirra)
Hann bætir líka við hugmyndum um hvað gera skuli í framhaldinu, þegar kreppan er um garð gengin og byggja skal til framtíðar:
- Herða á reglugerðum í fjármálageiranum
- Auka umboð og valdsvið seðlabanka og FME
- Ganga inn í evrusvæðið (eða tengjast Noregi og norskri krónu) þegar búið er að ná stöðugri íslenskri krónu í nokkur ár.
- Hugsanlega ganga í ESB, þá líklega sem múrbrjótur" fyrir Noreg, til að verja þá gegn "skaðlegri fiskveiðistefnu ESB".
Carsteen Valgreen, sem líka varaði við bankahruni, sagði í Fréttablaðinu á laugardaginn að hugleiða megi evru þegar innlendum stofnunum og verðbólguvæntingum hefur verið komið í eðlilegt horf". Það sé þó ekki víst að skipta þurfi um gjaldmiðil.
Íslensku hagfræðingarnir tveir eru Guðmundur Ólafsson, sem var í Kastljósinu í kvöld og Ólafur Margeirsson, sem skrifaði nokkuð ítarlega grein sem birtist í Silfrinu á Eyjunni í gær.
Guðmundur Ólafsson. Helstu punktarnir úr viðtalinu við hann í kvöld:
- Þetta mál er komið út úr hagfræðinni fyrir löngu.
- Allar þessar tölur - maður skilur þær ekki.
- Horfurnar jafnvel enn verri en Robert Wade lýsir.
- Ég veit ekki hvað á að gera.
- Loftbólan sem sprakk byrjaði að blása út 2003.
- Það er nauðsynlegt að segja fólki satt.
- Nauðbeygð til að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil.
Undir lokin talaði hann svo um sögusagnir" þess efnis að ríkisstjórnin ætla að seilast í lífeyrissjóðina til að borga skuldir. Hann sá líka ljós í myrkrinu; út úr hörmungunum kemur eitthvað nýtt og mönnum gefst tími til að sinna hugðarefnum sínum í kreppunni og sinna ástinni.
Ólafur Margeirsson varar við upptöku evru í grein sinni á Silfureyjunni. Segir að það hefði verið gott að taka hana upp fyrir nokkrum árum vegna alþjóðlegrar bankastarfsemi. Nú er sú starfsemi ekki lengur til og gæti orðið til tjóns að skipta um gjaldmiðil.
Útlendingarnir tveir eru sammála um það að bíða með breytingar á gjaldmiðli. Vinna sig út úr kreppunni fyrst og huga að gjaldmiðilsbreytingu síðar. Valgreen telur þó ekki víst að þess þurfi.
Íslendingarnir tveir eru hvor á sínum endanum. Annar vill einhliða upptöku strax, hinn telur að breyting gæti orðið til tjóns en krónan sé vörnin í kreppunni.
Hverju eiga svo þeir að trúa sem ekki hafa lögmál hagfræðinnar á takteinum? Miðaða við þá þróun sem víða má sjá í Evrulöndum hallast ég að áliti þeirra erlendu. Setja kraftinn í að byggja upp Nýja Ísland og taka svo þessa gjaldmiðilsumræðu eftir nokkur ár þegar því er lokið.
Robert Wade,ræða hans á íslensku á bloggi Láru Hönnu
Carsten Valgreen,bloggfærsla um grein hans og viðtengd frétt á mbl.is
Guðmundur Ólafsson, Kastljósþátturinn á RÚV
Ólafur Margeirsson, grein hans á Eyjunni, Silfri Egils
![]() |
Kreppan getur dýpkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.1.2009 | 18:33
Stálhnefinn - aftur!
Kannski eins gott að Guðlaugur Þór var ekki borinn út með valdi í dag, eins og þeir allra heitustu töluðu um í gær. Það var stálhnefinn sem var reiddur til höggs, Ingibjörg Sólrún sem einhver kallaði utan- og innanríkisráðherra, átti "skilaboðin".
Hitt er annað mál að Guðlaugur Þór virkaði í varnarstöðu á Kastljósinu. Sér í lagi þegar Sigmar gekk ítrekað á hann varðandi meinta stefnubreytingu, einkavæðingu og "aðkomu" Roberts Wessman að rekstri skurðstofu í Keflavík.
Það verður að gera greinarmun á einkarekstri og einkavæðingu, sagði hann. Einhvern veginn fékk maður á tilfinninguna að þegar ráðherrann sagði "mér hugnast ekki einkavæðing" að þá væri hann með lygaramerki á tánum. En hann hefur þó verið hreinsaður af ásökunum um að hafa haft í hótunum við ræðumann.
Ingibjörg Sólrún segist hafa verið að ráða ræðumanninum heilt. Ræðumaðurinn talaði um heilræðið sem hótun. Það er blæbrigðamunur á.
![]() |
Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2009 | 13:13
Grágás, Járnsíða og Jónsbók
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru sakamenn dæmdir til fjársekta, hýðingar eða lífláts. Tvær síðastnefndu refsingarnar eru löngu aflagðar. Þá voru ekki byggð nein fangelsi, heldur menn sendir í útlegð ef þeir áttu ekki samleið með samfélaginu.
Fyrir mörgum árum sá ég lögfróðan mann í sjónvarpi sem sagði að enn væru í gildi einhver lög úr gömlu Jónsbók. Ekki man ég hvaða lög.
Það er fátt verra fyrir þjóðarsálina en viðvarandi atvinnuleysi. Í desember voru 7.902 án atvinnu og þeim mun fara fjölgandi. Þegar maður hugsar til þess að þetta eru beinar afleiðingar af glæpsamlegri græðgi fáeinna útrásardólga, veltir maður fyrir sér hvort enn sé heimilt að dæma menn í útlegð. Hvað segir Jónsbók um það?

Nú er spáð að atvinnuleysi, sem mældist 4,8%, muni enn aukast, enda ríkir djúp kreppa. Það gæti farið í 6,4 til 6,9%. Í fréttabréfi dagsins frá greiningardeild Glitnis er líka fjallað um atvinnuleysi.
Athygli vekur að í línuriti yfir þróun frá árinu 2000 kemur fram að atvinnuleysi á Evrusvæðinu hefur aldrei farið undir 7% á þessum tíma. Meira að segja upp undir 9% 2004-06. Kreppulaust!
Vonum að kreppan hér á landi verði ekki langvinn með tilheyrandi atvinnuleysi árum saman. Það er skemmandi fyrir þjóðarsálina.
(Línuritið er úr Morgunkorni Glitnis, 13. jan. 2009)
![]() |
Atvinnuleysi 4,8% í desember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)