12.1.2009 | 22:37
Nýársheit og aðrar hótanir
Robert Wade, einn af frummælendum kvöldsins, var líka í Kastljósinu í kvöld. Það sem hann sagði hljómaði eins og skelfileg hrakspá. Ný dýfa væntanleg eftir tvo til fjóra mánuði. Aðrir fræðimenn hafa spáð meiriháttar samdrætti um allan heim, sem mun hafa áhrif hér. Gagnrýni Wades á FME var mjög harkaleg, svo ekki sé meira sagt. Og það er greinilega löngu tímabært að skipta um stjórn.
Það væri æskilegt að rjúfa þing strax 20. janúar, þegar þingmenn eru loksins búnir í jólafríi. Þá væri hægt að kjósa 14. mars. Stjórnarkreppan verður hvort sem er ekki dýpri en hún er; óstarfhæf stjórn og áhrifalausir þingmenn í jólafríi. Það þarf að endurnýja bæði fólk, hugmyndir og umboð.
Um áramótin sagði formaður Samfylkingarinnar að besta nýársheitið sem hægt væri að gefa þjóðinni væri loforð um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Nýársheit geta verið fín. Það er spurning hvort ekki sé rétt að allir flokkar gefi þjóðinni loforð. Hin pólitísku nýársheit gætu verið þessi:
Vinstri grænir hafi kjark til að segja upphátt nei við Evrópuaðild. Þeir eru á móti og eiga því ekki að þykjast vilja fara í viðræður og leggja samning í dóm kjósenda. Bara vera heiðarleg og segja satt. Koma með raunhæfar hugmyndir um kreppuvarnir.
Sjálfstæðisflokkurinn sýni kjark til að viðurkenna að frjálshyggjan gekk ekki upp, játa þau mistök fyrir þjóðinni og hverfa til annarra gilda. Breyta bæði stefnunni og forystuliðinu. Lofa að gera þetta aldrei aftur.
Samfylkingin sýni kjark til að gefa út stefnuskrá með þeim tveimur atriðum sem á stefnu hennar eru: Að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru. Hún sýni líka þann heiðarleika að kalla það kosningahótanir en ekki loforð.
Íslandshreyfingin sýni sig. Hafi kjark til að taka á móti þeim sem ekki bera lengur traust til gömlu flokkanna og geri stefnumál sín sýnilegri. Sérstaklega varðandi stjórnkerfið.
Framsóknarflokkurinn þarf kjark til að reyna að vera til. Hann þarf líka að gera upp við fortíðina þó hann sé í stjórnarandstöðu nú um stundir.
Kjósendur hafi kjark til að krefja alla stjórnmálamenn um heiðarlegt uppgjör vegna bankahrunsins og sýni hug sinn í kjörklefanum. Bjóða upp á nýja kosti ef enginn flokkanna hugnast þeim.
Rjúfa þing, boða til kosninga, bretta upp ermarnar, fara í snarpa kosningabaráttu og drífa þetta af. Naflaskoðunin verður ekkert skárri þó menn gefi sér marga mánuði í hana. Uppgjörið verður bara betra ef menn taka slaginn núna meðan jarðvegur fyrir breytingar er frjór.
![]() |
Fullur salur í Háskólabíó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2009 | 00:49
Vá! Þeir koma alveg í kippum.
Það er naumast að þeir fjölmenna hingað Skandínavarnir. Undanfarnar vikur hafa þeir komið hver á eftir öðrum til að segja okkur hvað Íslendingum sé fyrir bestu í Evrópumálum. Sumir með inngöngu, aðrir á móti.
Fyrir áramót sendi Uffe Elleman Jensen okkur heilræði, Göran Person kom og talaði alveg ókeypis og finnski forsætisráðherrann Matti Vanhanen ákvað að gera okkur þann greiða að undirbúa umsókn Íslands í byrjun desember.
Peter Örebech miðlaði af norskri reynslu á fundi um sjávarútvegsmál og nú koma norskir fulltrúar til að beita sér gegn aðild Íslands að ESB, líklega af því að það er gott fyrir Noreg.
Eins er með Trostilla ráðuneytisstjórann finnska, hann vill styðja inngöngu Íslands í Evrópusambandið af því að það er gott fyrir Finnland.
Og þeir eru fleiri Finnarnir sem hafa tjáð sig um Ísland og ESB; heimspekingurinn Thomas Wallgern er á móti, djasssöngkonan Johanna Iivanainen er með.
En hvað með Ísland?
Verða ekki Norðmenn að treysta því að við áttum okkur sjálf á hagsmunum sem við eigum sameiginlega með þeim? Og bæði þeir, Finnar, Danir og Svíar að leyfa okkur að velja það sem er gott fyrir Ísland?
Það getur verið fín lína á milli hollráða og afskiptasemi.
Ég held að Íslendingar geti alveg fundið það út hjálparlaust að Evrópusambandið er ekki góður kostur. Í það minnsta ekki á þessum tímapunkti.
![]() |
Sagðir beita sér gegn ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |