30.12.2008 | 19:43
Þeir eru að gera allt vitlaust, strákarnir.
Tvö álit á sama síðdeginu frá Umboðsmanni Alþingis, þar sem sett er ofaní við ráðherra í ríkisstjórninni. Á hverjum degi kvarnast úr trúverðugleikanum. Hann er fyrir löngu orðinn langt fyrir neðan þau mörk sem ríkisstjórn verður að miða við.
Já, þeir eru að gera allt vitlaust, strákarnir. Og ekki í góðri merkingu þess frasa.
Hvernig ætlar dýralæknirinn að bregðast við? Síðast þegar Umboðsmaður gerði athugasemd við embættisfærslu hans gerði hann lítið úr því og sagði að þetta væri "bara álit". Sakaði hann einnig um að hafa haft fyrirfram mótaðar skoðanir á málinu, sem snérist um ráðningu Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara.
Það er ekki við góðu að búast ef menn líta þannig á. Þó sá úrskurður sem skrifaður er af embætti Umboðsmanns Alþingis beri heitið "álit" er hann formlegur gjörningur. Hann á að vera hluti af stjórnsýslukerfinu, enda var embætti Umboðsmanns komið á fót svo þegnarnir hefðu embættismann að leita til, teldu þeir brotið á sér í stjórnsýslunni.
Umboðsmaður Alþings hefur það vandasama hlutverk að tryggja traust almennings á stofnunum hinnar opinberu stjórnsýslu. Ef ráðherra gerir lítið úr hinum formlega gjörningi á opinberum vettvangi, talar um umboðsmann sem ómarktækan eða óvirðir embætti hans, myndi það í einhverjum löndum duga til þess að ráðherra yrði krafinn afsagnar.
Vonum að enginn fari yfir strikið í þetta sinn.
![]() |
Var óheimilt að ráða án auglýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2008 | 15:34
Þarf nokkuð að rannsaka?
Jæja, svo það sótti enginn um.
Líklegir umsækjendur hafa fylgst vel með fjölmiðlum síðustu daga og séð að þetta var óþarft embætti. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már eru búnir að upplýsa að það voru engar ólöglegar hreyfingar á fjármunum frá Kaupþingi.
Jón Ásgeir upplýsti á heilli opnu að að hann setti Ísland ekki á hausinn. Svo það máli er afgreitt.
Og það sem mestu máli skiptir: Það er ekki enn búið að skipa rannsóknarnefndina. Það er dregið og dregið. Ég velti því fyrir mér í síðustu færslu hvort það væri gert af ásetningi.
Til hvers að skipa saksóknara ef ekkert á að rannsaka? Það sækir enginn um embætti sem á ekki að gera neitt. Er ástæðan ekki einmitt sú að það trúir því enginn lengur að ríkisstjórnin ætli að aðhafast neitt í málinu?
![]() |
Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2008 | 11:19
Eru þau að gera þetta viljandi?
Því lengur sem dregst, að gera eitthvað áþreifanlegt af hálfu ríkisins í rannsókn á hruninu mikla, því ágengari verður spurningin um hvort þessi ótrúlega töf sé að ásettu ráði.
Það er óverjandi að það taki 12 vikur að skipa rannsóknarnefnd, sem hefði átt að skipa strax. Að hámarki hefði það átt að taka 12 daga, svo stórt er þetta mál. Hvaða ástæða býr að baki?
Sökudólgalisti #1
Allra fyrstu dagana voru viðbrögðin í þjóðfélaginu mörkuð af undrun, reiði, sorg og áfalli. Listinn yfir helstu sökudólgana var svona:
- Útrásarvíkingarnir
- Bankarnir
- Seðlabankinn
- Ríkisstjórnin
- Fjármálaeftirlitið
Öll athyglin var á útrásarvíkingunum en FME varla í umræðunni til að byrja með. Þegar almenningur var upplýstur um að bakakerfið væri 10 sinnum stærra en sólin fóru bankarnir beint í toppslaginn og hið pólitíska bitbein sem Davíð Oddsson er, setti Seðlabankann réttilega næst þar á eftir.
Sökudólgalisti #2
Eftir því sem málin skýrðust í byrjun breyttist sakalistinn, sér í lagi þegar IceSave kom fram í dagsljósið. Einnig kom æ betur í ljós að þeir sem áttu að standa hina opinberu eftirlitsvakt höfðu sofið á verðinum. Listinn breyttist snarlega í þetta:
- Fjármálaeftirlitið
- Seðlabankinn
- Ríkisstjórnin
- Landsbankinn (IceSave) og Bjöggarnir
- Baugur - Glitnir, Jón Ásgeir og co
- Aðrir útrásardólgar
Ástæðan fyrir að FME og SÍ eru ofar á listanum en ríkisstjórnin er að það eru fagstofnanirnar sem áttu að geta séð, skilið og brugðist við. Ábyrgð stjórnvalda var/virtist fyrst og fremst pólitísk. Og Bjöggarnir eru ofar öðrum útrásardólgum á listanum vegna þess hve þungar klyfjar þeir leggja á landsmenn með IceSave.
Sökudólgalisti #3
Þegar lengra leið kom í ljós að ríkisvaldið hafði haft meiri möguleika á viðbrögðum en sýndist í fyrstu. Auk þess sýndi stjórnin máttleysi í IceSave deilunni. Þegar við bætist að ríkisstjórnin dregur það út í hið endalausa að gera eitthvað í málinu breytist listinn í samræmi við það.
Nú er svo komið að maður hlýtur að ætla að eitthvað sérstakt búi að baki því að stjórnvöld draga alvöru aðgerðir svona lengi. Það getur ekki verið tilviljun. Fyrir vikið er listinn núna svona:
- Ríkisstjórnin
- Ríkisstjórnin
- Ríkisstjórnin
- Fjármálaeftirlitið
- Seðlabankinn
- Landsbankinn/IceSave/Bjöggarnir
- Baugur, Glitnir (Stím) og skúffufélög Jón Ásgeirs og co
- Kaupþing, Exista og ýmsir útrásardólgar
Ríkisstjórnin á einn og aðeins einn raunhæfan kost. Hann er að slíta stjórn og boða til kosninga. Það þýðir ekkert að bjóða fólki upp á þær skýringar að ekki sé tímabært að kjósa. Það er tímabærara en að hafa 63 þingmenn í jólafríi í mánuð og stjórn sem er svo máttlaus að hún getur ekki einu sinni leiðrétt ósóma eftirlaunalaganna skammlaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2008 | 08:55
Stjórnmál eru ekki fag!
Stjórnmál eru bara ekki fag, það er röng hugsun sagði Páll Skúlason í sunnudagsviðtali Evu Maríu. Þau eru umfjöllun borgaranna um sín sameiginlegu mál og við, sem þjóð, höfum ekki ræktað stjórnmálin sem skyldi. Það er þörf á uppstokkun þegar hinu "hræðilega ári" er að ljúka svo betur fari á hinu nýja.
Það kom margt fram í máli Páls sem vert er að hugsa um. M.a. lýsti hann þeirri skoðun sinni að það sé slæmt að hafa atvinnupólitíkusa. Við þurfum fyrst og fremst að hafa embættismenn sem sjá til þess að stofnanir ríkisins gangi. Í stjórnmálum þurfum við að hafa fólk með heilbrigða skynsemi sem þekkir þjóðlífið og áttar sig á því hvernig almenningur hugsar. Skilur fólk úti í atvinnulífinu, í menningarheiminum o.s.frv.
Það er alltaf hættulegt ef menn verða atvinnustjórnmálamenn og einangrast frá þessum veruleika og líta svo á að þeir eigi að hugsa fyrir fólk. Hann nefndi líka að margar stofnanir ríkisins hafi veikst. Sumt sé af því góða, t.d. eigi ríkið ekki að vasast í rekstri heldur móta reglur og standa um almannaheill.
Páll hefur ekki trú á að aðalpersónurnar" í pólitíkinni geti endurheimt trú þjóðarinnar og að ekki sé hægt að halda áfram fyrr en hreinsun eða tiltekt hefur farið fram; uppstokkun í stjórnmálum. Hann ræddi líka um að hópar hafa fengið óeðlileg völd. Þjóðfélagið hefur verið í óraunveruleika" sagði hann. Einokunarstarfsemi hefur tíðkast og fámennur hópur ráðskast með hluti með óeðlilegum hætti. Þessu þarf að breyta.
Íslensk þjóð verður aðeins að hugsa sinn gang; í hvaða skilningi viljum við vera Íslendingar og byggja sameiginlegan veruleika. Ekki ætla það, eða vona, að það komi frelsarar hérna inn og vísi okkur veginn til framtíðarlandsins. Við eigum margt að byggja á og stöndum ótrúlega vel að mörgu leyti. Eigum Ísland, sem býður upp á gífurlega möguleika.
Undir lok viðtalsins sagði Páll að þjóðfélagið fari ekki aftur í sama farið. Þjóðin hefur áttað sig á því að hugsun liðinna ára leiðir ekki að réttu marki. Þurfum að stefna að annars konar góðæri; sem er manneskjulegt, siðferðilegt og menningarlegt góðæri.
Nú er spurning um framhaldið. Hvert er best að stefna? Hvernig getur t.d. innganga í Evrópuríkið samrýmst því að hafa stjórnmálamenn sem þekkja þjóðlífið og vita hvernig almenningur hugsar? Það er útilokað með því að framselja ríkisvaldið 18 manna stjórn erlendra atvinnupólitíkusa, með aðsetur í Brussel, sem eru auk þessi ekki kjörnir í beinum lýðræðislegum kosningum.
Skyldu það vera frelsararnir" sem Páll Skúlason varar við?
![]() |
FT: Hræðilegu ári að ljúka á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)