21.12.2008 | 22:32
Sæll Eiríkur Bergmann
Glatast fullveldi við aðild að Evrópusambandinu?" spyr Eiríkur Bergmann, dósent á Bifröst, á bloggi sínu á Eyjunni. Ekki er lesendum gefinn kostur á að gera athugasemdir eða spyrja spurninga. Annars hefði ég skrifað eftirfarandi:
Sæll Eiríkur Bergmann og takk fyrir fræðandi skrif.
Fullveldi er að hafa fullt vald yfir eigin örlögum. Punktur. Í því sambandi skiptir ekki máli hvenær í sögunni orðið varð merkingarbært hugtak". Heldur ekki þó menn skrifuðu heilu bókasöfnin um lagalega eða pólitíska gildishleðslu orðsins, eins og þú kallar það.
Þegar ríki hefur framselt ákvörðunarrétt" til sambands með lagakerfi sem gengur framar landsrétti" er fullveldið ekki lengur til staðar, sama hvernig á það er litið. Það á ekki síst við um Evrópusambandið, einmitt vegna sérstöðu þess sem þú nefnir réttilega í greininni. Vald þess nær til hluta sem að öllu jöfnu heyra til innanlandsmála.
Ef Ísland er þegar orðið eins konar aukaaðili að Evrópusambandinu" hlýtur maður að spyrja hver þörfin sé á að ganga lengra. Er einhver nauðsyn sem rekur okkur til þess? Ég vona að ekki beri að skilja þessa setningu svo, að úr því við erum þegar búin að missa hluta af fullveldinu hvort sem er, þá sé í lagi að missa talsvert meira.
Ísland hefur nýtt sér réttinn til að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi og á nú aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum. Flestir sem tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu nefna evruna sem helstu (stundum einu) rökin og er það nokkuð augljóslega litað af kreppunni. Látum gjaldmiðilsmál liggja milli hluta að sinni, enda um áratugur þar til evran gæti numið hér land þó Ísland slysaðist inn í Evrópusambandið. Grein þín snýst heldur ekki um það.
Jafnvel er hægt að halda því fram ..." segirðu, um að aukið fullveldi felist í aðild að yfirþjóðlegri stofnun. Jafnvel! Og í lokasetningunni Ísland hefur fram að þessu kosið að nýta ekki fullveldisrétt sinn í stofnunum Evrópusambandsins". Þetta hljómar eins og bókin sé lesin á hvolfi.
Eigum við ekki að vona að Ísland kjósi áfram að snúa bókinni rétt og nýta fullveldisrétt sinn utan stofnana Evrópusambandsins? Sú breyting á Evrópusambandinu sem boðuð er með Lissabon samningnum (og ekki má kjósa um) stefnir í aukna miðstýringu og minnkandi lýðræði. Það er varla þróun til hins betra.
Sér í lagi geld ég varhug við hinni nýju utanríkisstefnu. Ein stefna og einn utanríkisráðherra fyrir eitt ríki: Evrópuríkið. Líka við breytingum varðandi fjárfestingar erlendra aðila utan sambandsins, sem aðildarríki geta ekki sett sér reglur um. Og samræmingu skattalaga sem eru á skjön við það sem Írar hafa gert til að örva efnahaginn hjá sér. Með inngöngu er sjálfræði látið af hendi í veigamiklum þáttum.
Þetta er svo stórt mál að það dugir ekkert jafnvel" í því sambandi. Sú staðreynd að stjórnmálastéttin" hreiðrar æ betur um sig í valdastöðum sambandsins gerir þennan kost fráhrindandi. Það verður lítið pláss fyrir lýðræði í hinu nýja Evrópuríki.
Frakkar eru úrvals kokkar, Ítalir snjallir hönnuðir, Þjóðverjar eru skipulagðir og sparsamir, Danir eru léttlyndir og skemmtilegir og um alla Evrópu er að finna gott fólk. En því miður er stjórnmálastéttin í Brussel ekki samnefnari evrópsku þjóðanna. Erum við ekki betur komin án hennar?
Já, þetta hefði ég skrifað hjá honum Eiríki Bergmann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2008 | 12:35
Hver tekur mark á rithöfundum?
Nú hafa rithöfundar gert sig gildandi í umræðunni um þjóðmál. Einar Már flytur ræður, skrifar greinar og mætir í Silfrið. Gerður Kristný gerir það líka og Einar Kárason mætti í Kastljós, nýverðlaunaður. Menn hafa líka notað Bjart í Sumarhúsum og tilvitnanir í Halldór Laxness.
Það er vel.
Umræðan er ekki einkamála pólitíkusa og peningamanna. En þetta er ekki bara á Íslandi.
Í þeirri ólgu sem nú ríkir í Grikklandi hefur rithöfundurinn Mimis Androvlakis tekið virkan þátt í umræðunni. Hann skrifar um hvernig ESB hefur brugðist Grikkjum; hefðir þeirra, menning og saga fái ekki pláss í hagfræði Ríkisins.
Vladimir Bukovsky er einn rithöfundurinn enn, sem tjáir sig um þróunina í pólitík. Hann skoðar þróun Evrópusambandsins frá stofnun til dagsins í dag og væntanlegt framhald. Hans niðurstaða er að farvegurinn sé nákvæmlega sá sami og Sovétríkin liðuðust um á sínum tíma, þar til þau liðuðust í sundur.
En hver hlustar á rithöfunda? Þeir stúdera ekki þjóðarframleiðslu, hagtölur, viðskiptahalla, þrýsting í hagkerfinu og gengismun. Þeirra sjónarhorn er annað, yfirleitt tengt þjóðinni, sögu hennar og menningu.
Það er hollt að fá fram sem flest sjónarhorn, svo já, hlustum á þá líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)