10.12.2008 | 21:13
Gúrkuregla ESB numin úr gildi
Í júlí á næsta ári falla úr gildi nokkrar af reglum ESB um það hvernig náttúran á að skila af sér framleiðslu sinni. Reglur um hvernig gúrkur, gulrætur, plómur o.fl. eiga að líta út heyra þá sögunni til en "bananareglan" lifir áfram. Einnig verða áfram í gildi reglur um m.a. epli, appelsínur, jarðarber og tómata.
Það þarf ekki lengur að henda mat af því að hann er ljótur. Alls eru það 26 tegundir grænmetis og ávaxta sem þetta á við um enda "engin glóra að henda góðum mat" segir Mariann Fischer Boel, kommisar í Framkvæmdastjórn ESB.
Gúrkureglan (EEC No 1677/88), sem margir telja þjóðsögu eina, er til í alvöru og mælir fyrir um að agúrkur megi ekki bogna um meira en 10mm fyrir hverja 10 cm lengdar. Hún fellur úr gildi.
Bananareglan (EC 2257/94), verður til áfram, en þar segir m.a. "... the grade, i.e. the measurement, in millimeters, of the thickness of a transverse section af the fruit between the lateral faces and the middle, perpendicularly to the longitudinal axis ..."
Leyft verður að selja bæði "ófullkomna" banana og hinar tegundirnar á bannlistanum ef vörurnar eru sérmerktar og ætlaðar til matseldar.
Kveikjan að þessum skrifum er athugasemd sem ég fékk við síðustu færslu. Þar skrifaði ég af algjöru alvöruleysi um reglugerð ESB um ljósaperur. Hún var sett í göfugum tilgangi, að spara orku. Mér fannst hún bara svo fyndin. Mér finnst þetta gúrkudæmi fyndið líka þó ekkert jafnist á við textann um bananana!
Og bara til að halda því til haga: Ef einhver kynni að halda að það sem sagt var um sláttuvélar í færslunni hér á undan sé bara bull úr mér, þá er ekki svo. Nánar um það skemmtilega mál í næstu færslu.
Bloggar | Breytt 11.12.2008 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2008 | 10:28
Ljósaperuráðherra ESB
Olli Rehn segir að Ísland geti keppt um að verða 28. ríki ESB, eins og hann sé að tala um íþróttamót. Þetta sagði hann í gegnum gervihnött við fólk í HR í morgun. Við vorum ánægð með silfrið á OL í handbolta og ég væri ekkert ósáttur við að koma á eftir Króötum í mark í þessari "keppni".
Rehn segir líka að "á næstu árum" verði fiskveiðistefna ESB endurskoðuð, sem er hið besta mál. Ekki kom fram hvort átt væri við framseljanlegar veiðiheimildir. Verst er að hann fær ennþá martraðir þegar hann hugsar um kreppuna í Finnlandi. Karl anginn.
Bara að við Íslendingar fáum ekki martraðir. Þá er ég ekki að hugsa um ESB, heldur hitt, að á meðan sú umræða fær jafn mikla athygli og raun ber vitni er verið að gefa í nýtt spil: "Útrásarvíkingarnir - part two". Fyrsti hluti þess heitir Exista, Noa Noa og Next.
Í tíufréttum RÚV í gærkvöldi var skemmtileg frétt um starfið í ESB. Sænsk kona dásamaði spar-perur. Hún upplýsti að nú væru í smíðum nýjar reglur um notkun á ljósaperum í ESB. Strax á næsta ári verður bannað að selja 100 watta perur til heimabrúks.
Ef við göngum í ESB legg ég til að við sækjumst eftir embætti ljósaperuráðherra. Sækjum líka fast að fá fulltrúa í nefndinni sem vinnur að smíði reglugerðar um hávaðmengun frá vélknúnum garðsláttuvélum.
![]() |
Ísland gæti keppt um að verða 28. ríki ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)