24.11.2008 | 22:26
Hvenær er borgarafundur góður fundur?
Fundurinn í Háskólabíói var um margt góður. En það var líka sumt sem var ekki nógu gott. Ráðherrarnir komu mér á óvart að mæta svona margir en aðsókn almennings kom mér ekki á óvart. Smekkfullt út úr dyrum. Bókstaflega.
Það var augljóst að ráðherrum leið ekki vel að sitja þarna undir ræðum sumra frummælenda, en við því er ekkert að segja. Ástandið er skelfilegt og allt annað en einfalt að horfast í augu við það. Spurningarnar voru misgóðar og svörin líka.
Ef framhald á að vera á þessu þarf að bæta fundarstjórnina. Ég tek ofan fyrir Gunnari fyrir undirbúninginn og vinnuna sem hann hefur lagt í þetta. Það að gera þennan fund að veruleika og fá bæði ráðherra og þingmenn til að mæta er afrek. En hann er því miður ekki góður fundarstjóri.
Að mínum dómi er það ófrávíkjanleg krafa að skipt verði um stjórnendur í Seðlabankanum. Það er þeim málstað ekki til framdráttar ef fundarstjóri segir í hæðnistón "leyfum Davíð bara að tala og hættum að hlusta á hann. Látum hann bara vera þarna og tala og tala, það hlustar hvort sem er enginn." Fundarstjóri á ekki að láta eins og hann sé aðalnúmerið í eigin afmælisveislu. Þá er ekki líklegt að viðmælendurnir vilji mæta aftur.
Það kom spurning utan úr sal um hversu margar undirskriftir þyrfti til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kom aldrei svar við þeirri spurningu. Ástæðuna tel ég slaka fundarstjórn þar sem skipulag var ekki nógu gott.
Ég vona að menn haldi samt áfram að boða til funda. Fyrir næsta fund þarf að læra af reynslu kvöldsins og gera betur næst. Fundarstjórn þarf að vera þannig að menn fái að svara þegar spurt er, eða eftir atvikum komist ekki undan því. Svo, sæmilegur fundur í kvöld og vonandi miklu betri næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2008 | 09:08
Og svo, þegar varnirnar bresta ...
Það er enn hægt að koma í veg fyrir upplausn og óeirðir, en tíminn er ekki endalaus. Ekki frekar en tíminn sem menn höfðu til að breyta IceSave í dótturfélög, hann rann út. Á sama hátt mun tími stjórnarinnar renna út og allt fara í bál og brand ef ekki verður breytt um kúrs. Að láta eins og það sé ekki raunveruleg hætta er eins og að stinga hausnum í sandinn.
Hættan er fyrir hendi og hún fer vaxandi. Við sáum það á laugardaginn. Fyrsti ræðumaður á Austurvelli var ungur laganemi, þar fór kona sem var augljóslega reið. Textinn sem hún flutti var á köflum ungæðislegur og ekki sá besti sem við höfum heyrt. En það skipti ekki máli. Hún náði til fjöldans því að hann er líka reiður. Eftir fundinn fór hópur fólks að lögreglustöðinni við Hlemm og þá sögu þekkja allir.
En þetta er bara undanfari. Á meðan reiðin og ólgan fær að safnast upp, eins og vatn í lóni, eykst þrýstingurinn á stíflugarðinn. Ríkisstjórnin er eina stjórnvaldið sem hefur tækin til að lækka í lóninu og hleypa ólgunni í æskilegan farveg. Geri hún það ekki mun stíflan bresta og allt fara í bál og brand. Það þýðir ekki að halda að slíkt geti ekki gerst á Íslandi.
Tækið sem stjórnin hefur er skynsemi. Hana á að nota til að koma með upplýsingar og auka traust. Að upplýsa fólk t.d. um gang mála í skilanefndum bankanna. Að endurvekja traust t.d. með nauðsynlegum mannabreytingum og loforði um kosningar. Það þýðir ekki að segja að það megi ekki kjósa. Og það hækkar bara í lóninu ef gengið er þvert gegn vilja yfirgnæfandi meirihluti fólks í lýðræðisríki. Skýrasta dæmið er óbreytt stjórn seðlabankans, sem er óhjákvæmilegt að skipta út.
Stjórnin hefur enn einhvern tíma til að afstýra óeirðum. Um daginn setti ég saman blogg "Tillaga um aukið traust - en ekki vantraust" með þremur hugmyndum sem ég er sannfærður um að væru til bóta. En verði ekkert gert heldur áfram að hækka í óánægjulóninu. Á endanum munu varnirnar bresta. Það er glapræði að láta eins og það geti ekki gerst. Það mun gerast - nema skynseminni verði hleypta að.