21.11.2008 | 13:18
Tillaga um aukið traust - en ekki vantraust
Nú er komin fram tillaga um vantraust. Hún verður vitanlega felld, enda bara táknræn. Má ég frekar biðja um tillögu um aukið traust. Ekki bara táknræna, heldur alvöru.
Tillaga í þremur liðum:
1) Gefin út yfirlýsing um að þing verði rofið í vor og kosið til Alþingis 20. júní.
2) Að fram að þeim tíma verði þjóðstjórn sem allir flokkar taki þátt í.
3) Að allir flokkar samþykki að kosningabarátta hefjist ekki fyrr en eftir 1. maí.
Um lið 1:
Það er augljós meirihlutavilji fyrir því að stjórnvöld sæki nýtt umboð til kjósenda. Það er þetta með lýðræðið. Líklega eru fleiri sem vilja kjósa í vor en strax.
Í viðtali við forsætisráðherra í Kastljósi nefndi hann að 1. úttekt IMF verði í febrúar, að lán frá öðrum lánveitendum verði að berast fram í mars/apríl og að 2. úttekt IMF verði í maí. Ef ekki er ráðlegt að kjósa núna má gera það strax að þessu loknu.
Um lið 2:
Stjórnarflokkarnir tveir gefi eftir tvö ráðherraembætti hvor. Vinstri grænir taki við tveimur og Framsókn og Frjálslyndir við einu hvor. Allir vinni saman að lausn vandans svo flokkspólitísk rifrildi séu ekki til vandræða á meðan. Svo við eyðum ekki púðri í vantrauststillögur og annað karp.
Um lið 3:
Til að koma í veg fyrir "framboðsræður" á Alþingi, þegar menn eiga að vera að vinna þarfaverk, geri menn samkomulag um að sneiða hjá þeim. Einnig verði bannað að auglýsa í fjölmiðlum fyrr en eftir 1. maí. Sjö vikna kosningabarátta er alveg nóg.
Það er augljóst að stjórn Seðlabankans er byrði á forsætisráðherra og hann þyrfti því að setja nýja stjórn yfir bankann um leið og þessar breytingar yrðu tilkynntar. Þá þarf að fara fram hlutlaus kynning á Evrópusambandinu, sem verður stórt kosningamál. Fjölmiðlar mættu svo bæta sig í pólitískri umfjöllun. Ágætt fyrsta skref er að hætta að fjalla um hina ótímabæru forsetabók og setja Hvítbók á dagskrá í staðinn. Hún skiptir talsvert meira máli.
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)