27.3.2009 | 18:38
Tvennar ESB kosningar eru nauðsyn
Nú hafa allir gömlu flokkarnir gefið út einhvers konar stefnu varðandi næstu skref í þrætunni endalausu um ESB. Tveir vilja hefja viðræður til að "sjá hvað er í boði" og leyfa svo þjóðinni að kjósa um samning. Tveir vilja láta kjósa um hvort farið verði í viðræður.
L-listinn er alfarið á móti viðræðum og inngöngu en Borgarahreyfingin tekur ekki beina afstöðu í þessu tiltekna máli.
Tvennar kosningar um ESB eru nauðsynlegar.
Sumir telja óþarft að kjósa tvisvar og að með því sé verið að tefja málið að óþörfu. Ef menn vilja setja stefnuna á ESB á annað borð þá eru tvennar kosningar góð stjórnsýsla og algjör nauðsyn.
Hvers vegna?
Vegna þess að til þess að fá samning þarf að fara í viðræður. Til þess að fara í viðræður þarf að sækja um aðild. Til að sækja um aðild þarf þjóðin að vilja ganga í sambandið og taka þátt í starfi þess. Að baki verða að vera heilindi.
Umsókn er eitthvað sem ber að taka alvarlega. Ekki bara fá samning "til að sjá hvað er í boði" eins og það sé ekki stærra mál en að máta buxur. Í umsókn felst yfirlýsing og skilaboð til annarra sambandsríkja. Stjórnmálamenn þurf að sækja umboð til kjósenda til að gefa slíka yfirlýsingu.
Kosningar #1
Fyrri kosningarnar eiga að snúast um umboð til að sækja um aðild og hefja viðræður. Eða hafna því. Samningsmarkið kæmu þá væntanlega fram líka.
Þessar kosningar geta farið fram snemma á næsta ári þegar ljóst er orðið hver örlög Lissabon samningsins verða. Á meðan óvissa ríkir um hann liggja ekki fyrir þær upplýsingar sem kjósendur eiga rétt á áður en þeir taka afstöðu.
Kosningar #2
Síðari kosningarnar yrðu svo um samninginn sjálfan og samþykkt eða höfnun á aðild að Evrópusambandinu. Ef meirihlutinn segir já förum við í Evrópusambandið, annars ekki. Þannig virkar jú lýðræðið.
Þó er spurning hvort ekki þurfi að nota reglur ESB um aukinn meirihluta í máli sem er svo stórt að það felur í sér valdaframsal sem kallar á breytingu á stjórnarskrá.
![]() |
Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2009 | 16:58
Skammarleg meðferð á gömlu fólki
"Við höfum mestar áhyggjur af óhóflegri tekjutengingu fjármagnstekna við lífeyri hjá Tryggingastofnun" er haft eftir formanni stjórnar Landssambands eldri borgara. Þessar áhyggjur eru því miður ekki að ástæðulausu.
Aukin tekjutenging bitnar á þeim sem eiga minnst.
Á Þorláksmessu var gefin út reglugerð, undirrituð af Jóhönnu Sigurðardóttur, um fjárhæðir bóta almannatrygginga. Þremur dögum fyrr voru samþykkt lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum" þar sem skerðing vegna fjármagnstekna var hækkuð úr 50% í 100%. Þetta hefur ekki farið hátt. Kannski vegna þess að breytingin bitnar á "ósýnilegum" hópi fólks og verður lítt sýnileg fyrr en eftir kosningar.
Þessi meðferð á efnalitlu gömlu fólki er til skammar.
Fyrir tveimur árum var sett inn frítekjumark á fjármagnstekjur, kr. 90.000, vegna lífeyristrygginga frá TR. Nú um áramótin var það hækkað í um 9,6%, eins og bótafjárhæðirnar. Þessi hækkun er létt á metunum þegar allar tekjur umfram það koma nú til skerðingar.
Jaðaráhrifin, sem er ekkert annað en óbein skattlagning, þýða að aldraðir og efnalitlir þurfa nú að borga margfaldan skatt af sínum vaxtatekjum. Með efnalitlum á ég við þá sem hafa takmörkuð lífeyrisréttindi.
Þetta bitnar ekki á þeim sem hafa góð lífeyrisréttindi, þeir eru hvort sem er ekki með tekjutryggingu, heimilisuppbót eða framfærsluuppbót. Það eru þeir sem hafa minnst sem verða fyrir barðinu á þessum ófögnuði.
Tæplega áttræður maður með 32 þús á mán. úr lífeyrissjóði, hafði 478 þús. krónur í vaxtatekjur á síðasta ári af 3,9 millj. kr. innstæðu sem hann hafði önglað saman gegnum tíðina. Án vaxtatekna hefði hann 148 þús á mánuði frá TR, til viðbótar því lítilræði sem hann fær úr lífeyrissjóði.
Gömlu reglurnar hefðu lækkað greiðsluna niður í 125.378 krónur en eftir breytingar og ráðstafanir í ríkisfjármálum" fer hann niður í 117.310 krónur á mánuði.
Viðbótar jaðarskatturinn er 96.816 krónur á ári. Tvöfalt það sem hann greiddi í fjármagnstekjuskatt af vöxtum og verðbótum.
Og þetta er bara viðbótarskerðingin; kjaftshöggið sem hann fékk í jólagjöf frá Heilagri Jóhönnu og ríkisstjórninni. Ef litið er á alla skerðinguna standa eftir 63.720 krónur af vaxtatekjunum. Það er nú allt. Minna en einn fimmti af verðbótunum.
Eru þetta breiðu bökin?
Skilaboðin til þessa manns eru þessi: Ef bæturnar duga ekki getur þú bara gengið á þínar litlu eignir eða étið það sem út frýs." Hann er einn af þeim sem tapar á hækkuninni".
Í alvöru talað: "Ráðstafanir í ríkisfjármálum" heita lögin.
Til viðbótar sjá svo menn fram á rýrnun á greiðslum úr lífeyrissjóðum og ekki þarf að fjölyrða um tap vegna sjóðsbréfa og hlutabréfa.
Er það réttlætanlegt að afmarkaður hópur þurfi að bera margfaldar byrðar á við aðra Íslendinga af því að hafa einhverjar vaxtatekjur af ævisparnaðinum?
Heilög Jóhanna ætti að leiðrétta þetta skelfilega óréttlæti frekar en að fjasa um súlustaði, kræklingarækt og tóbaksvarnir.
![]() |
Áhyggjur af skerðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2009 | 00:55
Að flytja (út) vald
Undanfarna tvo til þrjá áratugi hefur valddreifing verið fast stef í íslenskri stjórnmálaumræðu. Að færa valdið nær fólkinu. Sveitarfélög hafa verið sameinuð í öllum landshlutum til að styrkja sveitarstjórnarstigið og verkefni færð frá ríki til sveitarfélaga. Svo eru hverfisráð í Reykjavík angi af sama meiði.
Þetta er gert í þeirri trú að það sé slæmt fyrir samfélagið að færa of mikil völd á fáar hendur. Réttilega. Í sama takti er umræðan um endurreisn Alþingis, sem nú er sagt afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina. Of mikil völd séu færð framkvæmdavaldinu. Meira að segja beðið um stjórnlagaþing og stjórnarskrárbreytingar til að færa mál til betri vegar.
Það er örugglega rétt að því fjarlægara sem valdið er því verra er það fyrir samfélagið. Kerfið þyngist og skilvirknin minnkar. Skilningur á þörfum þegnanna minnkar. Nálægð við þegnanna er því alltaf af hinu góða. Þess vegna er það kostur að hér á landi er valdið hvorki fjarlægt né andlitslaust.
Nú vilja sumar skipta um kúrs og sigla í vitlausa átt.
Flytja valdið úr landi.
Það eru þeir sem vilja ganga í Evrópuríkið og flytja vænan skerf af bæði löggjafar- og framkvæmdavaldi til Brussel. Þar er þingið afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina (EU Commission), svona kerfi sem við viljum losna við hér heima. Helst með breytingu á stjórnarskrá. Völdin þar eru að mestu hjá ríkisstjórninni og fjölmörgum vinnuhópum hennar, hvað svo sem reglur og glansrit segja. Þessi ríkisstjórn verður framvegis skipuð 18 mönnum (eru núna 27) og þeir eru ekki kjörnir í beinum lýðræðislegum kosningum. Tengslin við borgarana eru engin.
Þegar valdið fjarlægist minnka um leið áhrif borgaranna á eigin velferð. Það að afsala sér valdi í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar mun alltaf leiða til skaða af einhverju tagi. Það gerist kannski ekki strax. Hnignunin verður ekki eins mikil og í sjávarplássunum í kringum landið og hún gerist ekki jafn hratt. En það verður hnignun. Hún bara læðist aftan að okkur.
Fari svo að menn nái að misnota kreppuna til að draga Ísland inn í Evrópuríkið, mun það draga bæði framtak og mátt úr samfélaginu. Hægt og hægt. Svo hægt að það tekur enginn eftir því, ekki svona dags daglega. Þegar fram líða stundir munu börn þeirra sem nú eru á grunnskólaaldri sitja uppi með skaðann. Og afkomendur þeirra líka.
Ef til væru patentlausnir þá væri engin kreppa. Innganga í Evrópusambandið getur aldrei orðið redding á kreppunni. Hún myndi í fyllingu tímans valda enn meiri skaða en það að taka upp erlendan gjaldmiðil án þess að hafa efni á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)