Einn tvöfaldan IceSave takk!

ireland_bailoutÞað er þyngra en tárum taki að horfa uppá hvernig komið er fyrir frændum okkar Írum. Hvernig sem á málið er litið þá á írska þjóðin sér ekki viðreisnar von nema til komi meiriháttar skuldauppgjöf. Því miður er hún ekki í sjónmáli.

Í fréttum RÚV var rætt við íslenska námsmey í Dublin. Sé hægt að byggja á svörum hennar eiga Írar langt í land með að gera sér grein fyrir alvarleika málsins.

Á morgun á að greiða atkvæði um niðurskurðartillögur írsku stjórnarinnar. Hér á Íslandi var boðaður 30 milljarða niðurskurður, m.a. með stórskertri heilbrigðisþjónustu víða um land. Niðurskurðurinn á Írlandi jafngildir því að hér væri skorið niður um 165 milljarða 2011-2014. Já 5,5 sinnum meira en við þurfum að þola í ár. Það er ógerningur að gera sér í hugarlund hvað það þýðir fyrir almenna borgara næstu árin.

En Írar eru í ESB og fengu "neyðarlán" frá vinum sínum í Brussel. Þetta er risalán með 5,8% okurvöxtum. Ekki til að hjálpa írsku þjóðinni, heldur til að halda lífi í ónýtum bönkum og bjarga evrunni. Þetta er neyðarlán í þeirri merkingu að það mun auka enn á neyð Íra á komandi árum.

Séu vaxtagreiðslur reiknaðar yfir á íslenskan mannfjölda jafngildir það 93,5 milljörðum á ári. Til samanburðar átti Icesave samningurinn, þessi glæsilegi, að bera 36,5 milljarða í árlega vexti. Þetta eru peningar sem verða klipptir út úr hagkerfinu með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Þetta er tvöfaldur Icesave og hálfum betur. Samt er þetta kallað "aðstoð" á brusselsku.

Vítin eru til þess að varast þau. Það er ekki hægt að skella allri skuldinni á ESB og evruna, því græðgi og pólitík Íra sjálfra er stór orsakavaldur. En sú staðreynd að Írland er pikkfast í handjárnum evrunnar gerir þeim endurreisnina hrikalega erfiða og hún mun taka mjög langan tíma.

esb_dominosÞeir sem aðhyllast inngöngu Ísland í ESB, evrunnar vegna, ættu að fylgjast með gangi mála á Írlandi næstu mánuðina. Kannski að það opni augu þeirra. Ef ekki, þá munu Portúgal, Spánn og hugsanlega Ítalía koma í írska kjölfarið.

Meðan á þessu gengur boðar Jóhanna nýjan IceSave samning og Össur linast ekkert í þeim ásetningi að draga þjóðina til Evrulands! 


Vond úrslit: Silfurþing með 14% umboð

Slök þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings kom kannski ekki mjög á óvart en olli vonbrigðum samt. Úrslitin eru þó enn verri.

Landsbyggðin er með 3 fulltrúa en Samfylkingin með 9. Það fer ekki á milli mála að það var smalað hjá krötum og flokksmenn hvattir til að koma Þorvaldi Gylfasyni í efsta sætið. Með góðri kosningu yrði fulltrúi flokksins líklegur forseti stjórnlagaþingsins. Yfirburðir hans eru engin tilviljun.

Þegar myndir af kjörnum fulltrúum birtust þekkti maður alla úr fjölmiðlum nema kannski þrjá eða fjóra. Venjulegt fólk komst ekki að, sem kannski var viðbúið. Flesta hinna kjörnu hefur maður séð í Silfri Egils eða öðrum fjölmiðlum.

En þetta sitjum við uppi með. Hinir 25 kjörnu fulltrúar fengu samtals 32.033 atkvæði "í fyrsta sætið" eða rúm 38% greiddra atkvæða. Það gerir tæp 14% af mönnum á kjörskrá. Veikt umboð er samt ekki aðal áhyggjuefnið, heldur skipulagt áhlaup Samfylkingarinnar.

Ég gerði mér vonir um alvöru stjórnlagaþing, þar sem flokkspólitíkin fengi frí. Í staðinn fáum við Silfurþing með 14% umboð, þar sem Samfylkingin hefur tögl og hagldir og Baugspenninn Þorvaldur verður fundarstjóri. Verra gat það varla orðið.  

 


mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband