18.11.2008 | 14:28
Hundurinn sagði ekki ég, kötturinn sagði ekki ég ....
![]() |
Ábyrgðin liggur hjá bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2008 | 12:01
Við skuldum meira en milljón tonn af þorski
Nú þegar búið er að "leysa deiluna" um IceSave er upplýst að skuldin sé eitthvað nálægt 640 milljörðum króna. Hver hún mælist eftir eitt ár, þegar krónan hefur fallið hressilega, veit enginn. En á krónupeningnum er mynd af þorski svo kannski er best að nota þorskinn til að skilja stærðirnar.
Síðasta sala íslenskra skipa í Grimsby og Hull gaf um 420 krónur á kílóið af þorski. Það gerir þá 420.000 krónur á tonnið og ef reiknistokkurinn bregst ekki kostar 1,5 milljónir tonna af þorski að gera skuldina upp.
Ef þorskkvótinn í íslenskri lögsögu er 120 þús. tonn á ári tæki tæp 13 ár að veiða upp í skuldina. Allur þorskur til ársins 2021 í að greiða skuldina. Ef tvö sjávarpláss á Íslandi, t.d. Þingeyri og Vopnafjörður, fengju það verkefni að skapa verðmæti upp í IceSave skuldina, hversu margar aldir tæki að klára dæmið?
Þetta er alveg hrikalega mikil skuld - og það fyrir bankaútibú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 15:13
Á degi íslenskrar tungu: Væri hægt að fá Maastricht á mannamáli?
Það er nauðsynlegt að almenningur fái hlutlausar upplýsingar á mannamáli um Evrópusambandið. Efst á baugi í dag er hugsanleg innganga í ESB og upptaka á evru. Jafnvel fullyrt að hægt sé að koma Íslandi inn í ESB á einu ári og taka upp evruna einhliða á mánuði. Skoðanakannanir sýna meira en 70% stuðning við aðildarviðræður og flokkar boða annað hvort breytingar eða endurskoðun á afstöðu sinni.
En hvað er Evrópusambandið? Þó pólitík snúist um fjölmargt annað verða þetta stóru kosningamálin í vor. Hvað stendur í Maastricht samningnum? Og hvað felst í EMU og ERM II? Þarf þjóðaratkvæði? Þarf að breyta stjórnarskránni? Hverju breytir Lissabon samningurinn ef hann verður samþykktur?
Nú hlýtur að styttast í kosningar og því vil ég bera fram tvær óskir til verðandi frambjóðenda:
1) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "við verðum að ganga í ESB" eða "við verðum að standa utan við ESB". Upplýstu mig frekar um alla kostina og gallana líka, af fullum heiðarleika. Þá get ég vegið og metið sjálfur og komist að niðurstöðu eins og þú.
2) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "það eina sem vit er í er að taka upp evruna" eða "við verðum að standa vörð um krónuna". Upplýstu mig frekar um kosti og galla, ávinning og fórnir. Og gerðu það heiðarlega. Þá get ég sjálfur komist að niðurstöðu, eins og þú.
Og kæri pólitíkus, talaðu við mig en ekki niður til mín. Ef þú ert fullkomlega heiðarlegur og ég kemst að sömu niðurstöðu og þú, þá ætla ég að kjósa þig. En sértu ekki heiðarlegur ætla ég að ganga í lið andstæðinga þinna. Eða skila auðu.
Íslendingar eru vel læsir og skrifandi og ég treysti dómgreind almennings ekki síður en pólitíkusa. Við getum lesið bæði bókstafi og tölustafi. Jafnvel útlensku líka. Það á ekki að rétta okkur svörin í pakka með kosningaloforðum, heldur upplýsingar. Við finnum svörin sjálf og kjósum svo.
Hvíta bók á öll heimili
Ég legg til að gefin verði út bók sem gæti heitið Maastricht á mannamáli. Flokkar á Alþingi tilnefni fulltrúa í ritnefnd sem svo skipi þriggja manna ritstjórn óháðra manna sem hafa góða þekkingu á málunum. Síðan gefi Alþingi út ritið sem dreift verði til allra Íslendinga. Algjörlega hlutlaus umfjöllun, laus við flokkspólitík (ritstjórn án þingmanna).
Umfjöllunin þarf að vera skýr, þ.e. á máli sem allir skilja en ekki eitthvað torf á stofnanamáli. Þar verður að útskýra hvað Evrópusambandið raunverulega er, stoðirnar þrjár, muninn á því að hafa "bara" EES og fullri aðild, hver evruskilyrðin eru, hvaða tilgangi ERM II þjónar, hvort og þá hvaða áhrif evra hefur á vexti, hlutverk seðlabankans, muninn á myntbandalagi og EMU, um landbúnaðinn (CAP), fiskveiðarnar (CFP), verslun, tolla, sameiginlegan markað og annað sem máli skiptir. Og raunhæfan tímaramma.
Svona rit þarf ekki að verða neinn doðrantur og það er vel hægt að setja þetta allt fram á aðgengilegan máta. Það er nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir Lissabon samningnum líka, þó ekki væri nema í viðauka. Sjálfur hef ég reynt að rýna í þetta allt og er á báðum áttum. Það væri mikill fengur í hlutlausu riti sem legði grunninn að umræðu sem væri málefnalegri en verið hefur hingað til.
Bloggar | Breytt 21.11.2008 kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2008 | 11:18
Því legg ég til, herra forseti, að við tökum upp íslenska krónu
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nú þegar við erum svo gott sem komin með evruna, þarf að líta fram á veginn. Evran er ekki við sem besta heilsu sem stendur, þó hún sé öllu hressari en krónulufsan.
Það er ekki bara krónan sem fellur. Evran fellur nú hratt gagnvart dollar sem fellur gagnvart yeni. Dr. G. Pagliaccio, prófessor við Perdita di Denaro háskólann í Mílanó, óttast að heilsu evrunnar muni hraka umtalsvert á næstu árum. Jafnvel svo að hún verði komin að fótum fram innan fárra ára.
Dr. Giallo Pagliaccio hafa tvívegis hlotnast hin eftirsóttu Stronzate verðlaun fyrir rannsóknir sínar á ríkisfjármálum, en hann er einn aðalhöfundur Fallimento kenningarinnar. Hann bendir á að í Evru-löndum standi nú um 3,5 milljónir íbúða auðar og að verð á fasteignum fari lækkandi. Nokkuð sem menn kannast vel við í Reykjavík.
Gangi spár Dr. Pagliaccios eftir er vissara fyrir Íslendinga að grípa til forvarna hið fyrsta, svo að fyrirsjáanlegt fall evru valdi ekki meira skaða en orðinn er á efnahag landsins. Hann telur að kreppan muni leggjast þungt á Evrópu en þær þjóðir sem hafi eigin mynt muni þó standa betur þar sem þær geta nýtt sér gengisbreytingar. Því legg ég til, herra forseti, að við tökum upp íslenska krónu.
Fallimento kenningin er ein af grunnstoðum Lato-hagkerfisins, sem talið er það hollasta í heimi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 09:12
Ný verðbólguspá frá Verðurstofu Íslands
Ef hagfræðin væri jafn endanleg vísindi og margföldunartaflan væri enginn efnahagsvandi til. En hún á meira skylt við veðurfræði þar sem menn rýna í forsendur, afla gagna og gera spár. Svo eru margir óvissuþættir í veðurkerfunum. Þess vegna gerist það að veðurspár ganga ekki alltaf eftir.
Ef landslag og óvissuþættir geta orsakað gerólíkt veður í Æðey og Álftafirði, þó aðeins sé steinsnar þar á milli, hvernig er þetta þá í hagkerfunum? Lögmál sem eiga vel við fjölmennt ríki passa ekki eins vel við fámenn. Óvissuþættir í hagkerfunum eru margir. Það er munur á iðnríki og fiskveiðiþjóð, olíuríki og verslunarþjóð. Þó grundvallarreglurnar séu eins.
Hagfræðingar spá hörðum vetri. Það efast fáir um að sú spá rætist. En það eru líka margar aðrar spár í boði, bæði langtíma og styttri. Þær ganga ýmist í austur eða vestur, knúnar af krónu, dollar eða evru. Allar hljóma þær trúverðugar, a.m.k. í fyrstu.
Þegar einhver byrjar að útlista kenningu sína á "það eina sem vit er í" finnst mér ekki taka því að lesa lengra. Það virkar eins og inngangur að patentlausn sem er ekki til. Aðrir láta duga að krydda með "einn helsti sérfræðingur" eða "frá hinu virta ráðgjafafyrirtæki" áður en kenningin/spáin er borin á borð. Fyrir leikmann eins og mig er illgerlegt að ákveða hvað er réttast og best. Enda hef ég ekkert vit á veðurfræði.
Veðurstofa Íslands spáir djúpri lægð og áframhaldandi verðbólgu um fyrirsjáanlega framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.11.2008 | 18:23
Fer framsóknarflokkum fækkandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 12:38
Áfram Spaugstofan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 00:33
Einhliða upptaka hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)