SÖNN SAGA: Ævintýri barónessu

baroness_ashton 
Breska barónessan Cahterine Ashton er án nokkurs vafa í mestu uppáhaldi hjá mér af öllum þeim sem fást við stjórnmál í Evrópu nú um stundir.

Hún er kannski ekki góður stjórnmálamaður og margir þegnar hennar hafa aldrei heyrt hennar getið.

Það er ævintýraleg leið hennar til metorða gerir sögu hennar merkilega.

Alveg stórmerkilega.

 

I. hluti - Skúrki sparkað.

Um miðjan síðasta áratug var skúrki sparkað úr London. Þá gat enginn séð að sá atburður ætti eftir að hafa áhrif á örlög óþekktu barónessunnar, enda tengdist sparkið henni ekkert. Eða svo héldu menn. Skúrkurinn, Peter Mandelson, þurfti að segja af sér embætti í annað sinn fyrir að misfara með skattfé almennings. Tony Blair sendi hann í útlegð til Brussel í refsingarskyni.

Þar var Mandelson gerður að viðskiptaráðherra Evrópusambandsins og smellpassaði í skúrkahóp Barrosos, yfirkommissars. Ætlunin var að láta hann afplána a.m.k. eitt kjörtímabil í höfuðborg Evrópuríkisins.
 

skurkurinn_mandelsonII. hluti - Hryðjuverkalög á Ísland.
Skúrkur kemur heim.

Nýi foringi útlagans, Gordon Brown, hafði vaxandi áhyggjur af fylgistapi. Þegar styttist í kosningar þurfti því að tjalda öllu til, eins og að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi til að sýnast stór og sterkur. Þá kallaði foringinn Mandelson heim úr útlegðinni til að styrkja flokkinn í komandi kosningabaráttu.

Íslandsvinurinn Brown þurfti að senda einhvern til Brussel í staðinn því eitt ár var eftir af "kjörtímabili" Mandelsons. Ekki mátti missa góða menn svo arftaki var sóttur í lávarðadeildina. Þar fannst einhver barónessa, sem skipti flokkinn engu máli.


III. hluti - Barónessa send úr landi.

Gordon Brown, sem fór rangt með nafn óþekktu barónessunnar, tókst að senda hana úr landi. Catherine Ashton var ekki kjörin til þings, frekar en aðrir meðlimir lávarðadeildarinnar þar sem blátt blóð er aðgöngumiðinn. Hún giftist vel. Hún hafði enga reynslu af stjórnun og enn minna vit á viðskiptamálum. En samt var hún orðin viðskiptaráðherra Evrópuríkisins. Reyndar aðeins til að hlaupa í skarðið þetta eina ár, en embætti er embætti.

IV. hluti - Smá tafir vegna yfirgangs.
Stólnum reddað með Icesave.

Það teygðist á "kjörtímabili" barónessunnar á meðan félagar hennar í ríkisstjórn Barrosos neyddu Íra, með pólitískum yfirgangi, til að kjósa aftur um sáttmála sem þeir vildu ekki. En það tókst og svo kom nýtt "kjörtímabil". Barroso tryggði sér áframhaldandi setu í embætti með því að taka málstað Breta í Icesave deilunni við Íslendinga og tryggja sér þannig stuðning þeirra. Barónessan átti ekki von á sæti í stjórninni áfram - og fékk það ekki heldur.

V. hluti - Óvænt stefnubreyting.

Sáttmálinn, sem enginn vildi, þýddi að til urðu tvö ný embætti. Forseti og utanríkisráðherra*. Tony Blair var talinn líklegur fyrsti forseti Evrópusambandsins, sem vildi fá þekkt andlit í embættið. Sterkan leiðtoga ríkisins. En því miður fyrir Blair var stutt í yfirheyrslur vegna innrásarinnar í Írak. Þegar svo gagnrýni varð háværari á enn aukna miðstýringu með "stóru nafni" í forsetaembætti breytti Brussel um stefnu.

Að sinni skyldi útvatna nýju embættin og setja lítt þekkta menn í stólana. Þar með yrði ekki skyggt á stubbana þrjá; Barroso, Sarkozy og Berlusconi. 

rompuy_forsetiVI. hluti - Nóbody kallar á barónessu.

Fyrir valinu í embætti forseta varð Belginn Herman Van Rompuy (mynd), lítt þekktur á heimsvísu, hálfgert pólitískt nóbody. Þá þurfti Evrópuríkið að vanda valið í sæti utanríkisráðherra*.

Herman var karl svo það þurfti konu í hinn stólinn. Hann var frá smáríki svo hún þurfti að koma úr einu hinna stærri. Hann var hægri-miðjumaður svo hún þurfti að vera af vinstri helmingnum.

Og viti menn: Barónessan sjálf smellpassaði og fékk starfið. Aðeins 16 mánuðum eftir að hún var send til Brussel í hallæri, til að hlaupa í skarðið fyrir skúrk, var hún orðin valdamesta manneskjan í gjörvallri Evrópu í utanríkismálum.

Sannkölluð sorgarsaga.

Það má gleðjast með barónessunni yfir ævintýralegum frama. Það verður seint leikið eftir að manneskja sem aldrei hefur boðið sig fram og aldrei verið kosin af neinum til að gera neitt, skuli hljóta eitt af valdamestu embættunum í heimsálfunni.

baroness_c_ashtonBarónessan er í "uppáhaldi" hjá mér, en ekki af æskilegum ástæðum. Heldur vegna þess að saga hennar er táknræn fyrir hvernig Evrópusambandið er að þróast í hættulega átt, burt frá lýðræðinu. Það getur ekki boðað gott og ætti að vera umræðuefni á íslenskum fundum um Sambandið.

----- ----- -----

* Á brusselsku kallast embættið "Æðsti talsmaður stefnu Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum" sem á mannamáli þýðir: Utanríkisráðherra. 

Á ensku er brusselski titillinn "The High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy".
 


mbl.is Opinn fundur um aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hún tryllir nú engan með útlitinu.

Helga Kristjánsdóttir, 27.9.2011 kl. 02:59

2 identicon

það boðar nú varla gott fyrir ESB ef ráðmenn veljast þangað á svona handahófskenndan hátt.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 27.9.2011 kl. 06:47

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þetta er svona: ugla sat á kvisti-úthlutun. Annars getur þannig úrtak reynst jafn vel og skipulagður pólitíkusa-hernaður, eða hvað? 

En það er án efa heiðarleiki og virðing fyrir sínum og annarra rétti og skoðunum, sem leiðir til réttlætis, jafnréttis og friðar, en ekki kúgaðar kosninga-niðurstöður æðstu embættismanna/kvenna. Það eru eflaust langflestir sammála um.

Ég hvet alla sem heilsu og tök hafa á, til að mæta á þennan fund, alveg óháð því hvar í pólitíkinni fólk er statt, því við leysum vandann aldrei öðruvísi en saman og með opinni, tillitssamri og málnefnanlegri umræðu! Við erum öll íslendingar/íslandsbúar, sem eigum öll jafn mikil samfélagsleg réttindi og skyldur, eftir getu og heilsu. Þeim réttindum og skyldum fylgir samfélagsleg ábyrgð, sem við höfum ekki siðferðislegan rétt til að skorast undan að taka þátt í.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.9.2011 kl. 20:45

4 Smámynd: Gunnar Waage

Stórkostleg lesning Haraldur !

Gunnar Waage, 27.9.2011 kl. 21:38

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.

Útlitið á ekki að skipta máli Helga. Churchill hafði ekki útlitið með sér en var slyngur leiðtogi og farsæll.

Það sem er alvarlegt við sögu barónessunnar er hvernig lýðræðið er gersamlega sniðgengið. Enda heyrast nú loksins raddir á þýska þinginu um að almenningur í Evrópu fái eitthvað um málin að segja. Jafnvel krafa um beinar kosningar æðstu embættismanna í Brussel.

Ég á eftir að sjá það að stjórnmálaelítan í Evrópusambandinu samþykki að taka upp lýðræði. Þeir hafa ekki sýnt því áhuga til þessa. Lýðræði er ekki til í ESB, nema bara að nafninu til og upp á punt.

Haraldur Hansson, 27.9.2011 kl. 22:53

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Nei,en hún er svo grimmileg,þótt brosi. Langaði að segja eitthvað annað en að mæra þig,það bitnaði á stúlkunni,sennilega af því´það særir hana ekkert. Eða ætlarðu að segja henni,,,,. 

Helga Kristjánsdóttir, 27.9.2011 kl. 23:13

7 Smámynd: Haraldur Hansson

OK, gott og vel.

En það er hægt að taka þetta lengra. Miklu lengra.

Auk ráðherraembættis er Ashton fyrsti varaforseti Framkvæmdastjórnar ESB (en forseti er ígildi forsætisráðherra í venjulegri ríkisstjórn þar sem hlutirnir mega heita réttum nöfnum). Er það eðlilegt?

Forveri hennar var "tilnefndur" af Blair úr röðum Verkamannaflokksins þó hann væri ekki sigurvegarinn í kosningum til Evrópuþingsins. Er það eðlilegt?

Þegar hún fékk svo nýja embættið höfðu Brown og flokkurinn líka tapað í þingkosningunum heima fyrir.

Jafnvel þótt menn reyni að sækja "tengingu að heiman" í leit að lýðræðislegri réttlætingu, dugir það ekki til. Ekki í tilfelli barónessunnar. Hún hefur nákvæmlega ekkert umboð frá íbúum Evrópusambandsins. Ekki einu sinni Bretlands.

Þegar lýðræðið er sniðgengið fer samfélaginu að hnigna. Skoðið bara landakortið og söguna. ESB er á vafasamri braut sem gæti skapað hættur sem enginn kærir sig um. Við eigum ekki að koma nálægt þessu apparati.

Haraldur Hansson, 28.9.2011 kl. 00:01

8 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott grein. Lénsherrar-skipulagið deyr seint og illa.

Krafan um lýðræði er að vaxa og vonandi nær þessi undiralda að danfa frekar, því fólk vill þetta ekki.

Haraldur Baldursson, 28.9.2011 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband