Super Mario í nýjum ESB bankaleik

EURO_propagandaESB leggur mikið upp úr ímyndinni. Skýrasta dæmið er Adonnino nefndin (1984) sem vann að hugmyndum um sameiginleg tákn Evrópusambandsins. Hún lagði m.a. til fána, þjóðsöng, Evrópudag, frímerki, sjónvarpsstöð, lottó, vegabréf og bílnúmer. Margt af þessu kom til framkvæmda.

Á hverju ári eyðir Evrópusambandið €350 milljónum í „kynningarstarf". Já, hvorki meira né minna en 63 milljörðum króna í áróður! Það er hærri fjárhæð en Coca Cola Company ver til auglýsinga.

Bæklingar, kynningar, vefsíður, ráðstefnur, barnaefni, auglýsingar o.s.frv.. Í fréttum RÚV í gær sáum við tölvuleik af heimasíðu seðlabanka Evrópu sem gengur út á „að fá evruna". Ég sá ekki betur en þarna væri gamla Gameboy hetjan Super Mario komin í bankaleik, klædd jogging-galla.

Smellið hér og spilið skemmtilegan evruleik Seðlabanka Evrópu.
Leikurinn er í boð áróðurssjóðs ESB, samstarfsaðila Samfylkingarinnar á Íslandi.

Í ár mun óvenju há upphæð renna til Írlands. Þá verða Írar látnir kjósa aftur um samninginn sem þeir felldu í fyrra. Hinir digru „kynningarsjóðir" verða nýttir til að fullvissa Íra um að þeir þurfi að kjósa „rétt" í þetta sinn. Þeir fái samt að ráða reglum um fóstureyðingar, varnarmál og skatta.

Á næstu fjórum mánuðum veður vel æfðum frösunum dembt yfir Íra. Hvað sé „Írlandi fyrir bestu", að þeir verði að vera „virkir þátttakendur", að þeir megi ekki „einangrast í samfélagi þjóðanna" og svo öll „efnahagsrökin" sem kom málinu ekkert við.

Þeir þola ekkert frjálst lýðræði, herrarnir í Brussel. Þeir gerðu þetta líka 2002.

Ef Alþingi heimilar utanríkisráðherra að sækja um ríkisborgararétt í Evrópuríkinu, fyrir alla Íslensku þjóðina, hverjar eru þá líkurnar á að áróðurs-evrur renni til Íslands á næsta ári?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá meira en Coca-Cola á ári? Þarf maður að vera heilaþveginn og ógagnrýninn til að taka því sem sannleika? Eða bara ESB-andstæðingur?

Er einhver munur þar á? Maður spyr sig.

Auglýsingakostnaður Coca-Cola fyritækisins var um $2.2 milljarðar árið 2007. Það gera um 2000 milljónir Evra - á meðan þú heldur því fram að ESB noti um 350 milljónir Evra á ári. Þannig er - skv. þínum tölum - kostnaður Kókakóla 5.7 sinnum meiri á ári í auglýsingar og kynningar en ESB.

Svo talar þú ekkert um hve mikill hluti af þessum 350 milljón Evrum er bara kynning á starfsemi ESB, svona til að minnka þennan lýðræðishalla sem vælt og skælt er svo mikið um.

Þessi bjána tölvuleikur er eitthvað sem meðal forritari gæti smellt saman á nokkrum dögum fyrir nokkur þúsund evrur. Það eru til skrilljón sharware og freeware útgáfur af svipuðum og jafnvel betri leikjum. Maður þarf líka að vasast inná ESB vefinn og sérstaklega finna þennan leik til að fá að spila hann.

Sért er nú hvert própagandaið. Pff. Get a life, eins og við krakkarnir segjum.

Uni Gislason (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 21:37

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Já hrepparígurinn maður. Hrepparígurinn!

Jón Halldór Guðmundsson, 24.6.2009 kl. 21:53

3 Smámynd: Dúa

Oh ég drap kallinn í leiknum í fyrsta stökki

Dúa, 24.6.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þeir í Brussel eiga það sameiginlegt með Hitler að hafa auga fyrir sterkri áorkan tákna og myndrænna fyrirbæra. Hann lá lengi yfir flokkstáknum og fánum sem duga myndu til að orka á sjónræna upplifun manna. Hakakrossinn og tenging hans við þjóðfána Þýzkalands var snilldarhönnun frá hans praktíska sjónarhorni séð – og hafði sín áhrif ásamt með söngvum og þjóðrembuáróðri.

Nú fer Evrópubandalagið þessa sömu götu sjónræns áróðurs. Blaktandi stjörnufánar eiga að sýna líflega eindrægni sem er þó meiri í orði og táknum en í veruleikanum.

Þeir vita sem Hitler, að það getur verið auðveldara að verka á tilfinningar manna heldur en skynsemi. Þeir vita, að myndirnar lifa í huganum og ná lengra til að skapa jákvæða "ímynd" heldur en rök, sem þeir eiga hvort eð er ekki nema í takmörkuðum mæli og bjóða upp á vandræði ...

Blöðin og Rúvið hérna heima falla í þessa gildru og komast jafnvel upp með að misbjóða lesendum sínum (þeim sem enn hafa virðinguna fyrir þjóðfánanum í lagi) með því að skeyta saman Ebé-fánanum og þeim íslenzka!

Hve mörg hundruð skyldu vera til af litlum og stórum fréttum sem "skreyttar" eru með þessum Ebéfána? Allt í boði Ebé-sinna á okkar "óhlutdrægu" fjölmiðlum ...

Jón Valur Jensson, 25.6.2009 kl. 01:53

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Uni: Hvort átt var við Evrópu eina eða heiminn allan í samanburðinum við Coca Cola veit ég ekki. Þar sem ársreikningur þess ágæta félags er ekki aðalatriðið í þessari færslu skoðaði ég hann ekki.

Skoðaðu Írland 2009 með hliðsjón af Nice samningnum sem var felldur þar 2001. Írar voru látnir kjósa um hann aftur 2002. Þá lagði ESB sitt af mörkum til kynningar og í sumar ætlar m.a. Sarkozy að fara til Írlands til að styrkja já-málstaðinn. Við vitum líka að peningar hafa mikil áhrif á umræðuna. Það kostar allt sitt. Hér á landi er verið að setja reglur um fjármál stjórnmálaflokka og auglýsingar. Það er ekki að ástæðulausu.

Glímdu við eina litla gátu. Hver mælti þessi orð?:

"Almenningur er ekki tilbúinn fyrir Evrópusamrunann. Þess vegna er nauðsynlegt að halda samrunanum áfram án þess að almenningur fái of mikið að vita hvað er að gerast."

Vísbending: Maðurinn hefur átt sæti á Evrópuþinginu og gegnt stöðu forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Haraldur Hansson, 25.6.2009 kl. 09:27

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Jón Halldór: Er hrepparígurinn vísun í með- og móti-hópana? Hann er nauðsynlegur fyrir umræðuna. Eða ertu að vísa í kókið eins og Uni. Coca Cola er sannarlega stórveldi á sínu sviði. Barroso vill gera ESB að stórveldi á sínu.

Dúa: Þú færð 5 kalla fyrir hvern leik. Ég komst yfir nokkrar hindranir og fékk 74 evrur. Reyndu bara aftur!

Jón Valur: Þegar dregin er upp líking við Þriðja ríkið segi ég pass. Vil þó halda íslenska fánanum óbreyttum, bæði í útliti og hvað hann stendur fyrir.

Haraldur Hansson, 25.6.2009 kl. 09:34

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Írar fá reyndar ekki að ráða reglum um fóstureyðingar, varnarmál og skatta. Lissabon-sáttmálanum (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) verður ekki breytt, aðeins munu fylgja honum ákveðnar pólitískar yfirlýsingar um þessi mál sem hafa ekkert lagalegt gildi ef á þær reynir fyrir dómstólum sem vafalítið verður raunin. Aðeins er um að ræða tilraun til þess að blekkja írska kjósendur til þess að samþykkja sama plaggið, afsakið, doðrantinn sem þeir höfnuðu fyrir ári.

Hjörtur J. Guðmundsson, 25.6.2009 kl. 10:30

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Haraldur, óttastu ekki þessa samlíkingu. Þar með nær hún reyndar ekki lengra – það er ekki verið að tala um nazisma í Ebé, ekki um SA- og SS-sveitir og Gestapo, ekki afnám lýðræðis, ekki arískan hroka, Gyðingaofsóknir og útrýmingarbúðir né Lebensraum og útþenslustríð. Ég sagði: "Þeir í Brussel eiga það sameiginlegt með Hitler að hafa auga fyrir sterkri áorkan tákna og myndrænna fyrirbæra." Samlíkingin náði ekki lengra. Þeir eiga þetta líka sameiginlegt með auglýsingastofum (Hitler starfaði sem skiltamálari fyrir slíkar) og PR-deildum og ímyndarsmiðum stórfyrirtækja. Tilgangurinn helgar meðalið hjá þeim öllum, þótt meðul Htlers og hans félaga hafi síðan reynzt miklu fleiri og ólíkt viðbjóðslegri en þau sem fólgin voru í notkun táknanna.

Innleggið frá Hirti er mjög athglisvert.

Jón Valur Jensson, 25.6.2009 kl. 11:11

9 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Sæll Haraldur

Ég held að þú sért nokkuð nálægt kjarna þess lýðræðis sem okkur er boðið upp á.

þú getur tekið þessi orð

 "Almenningur er ekki tilbúinn fyrir Evrópusamrunann. Þess vegna er nauðsynlegt að halda samrunanum áfram án þess að almenningur fái of mikið að vita hvað er að gerast."

 skipt orðinu Evrópusamrunann út fyrir hvað sem er og  þú ert kominn með afstöðu valdastéttarinnar í hnotskurn.  það er ekki oft sem valdhafar eru svona einlægir. 

En af því við búum í "lýðræði" þá er áróður eitt aðal stjórntækið.

Hver var annars svona hreinskilinn? ég er mjög forvitinn.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 25.6.2009 kl. 11:28

10 Smámynd: Haraldur Hansson

Hjörtur: Mikið rétt, sáttmálanum er ekki breytt. Þessi leið var valin svo ekki þyrfti að staðfesta samninginn aftur í þeim ríkjum sem höfðu lokið því. ESB mun leggja sig fram um að sannfæra Íra, með réttu eða röngu, um að pólitískar yfirlýsingar séu fullgild trygging. Það kostar.

Haraldur Hansson, 25.6.2009 kl. 12:38

11 Smámynd: Haraldur Hansson

Jón Valur, ég náði alveg punktinum. Það er bara svo að um leið og nasisminn er nefndur á nafn missir röksemdin vægi, enda tengist hann voveiflegum atburðum sem ekki þarf að fjölyrða um.

Skiptir þá ekki máli af hvaða tilefni hann er nefndur, jafnvel þó aðeins sé verið að ræða notkun tákna og hönnun ímyndar. Þess vegna sneiði ég hjá slíkum rökum, alfarið. Enda af nógu öðru að taka þegar gallar Evrópuríkisins eru annars vegar.

Haraldur Hansson, 25.6.2009 kl. 12:42

12 Smámynd: Haraldur Hansson

Benedikt Gunnar: Það var sjálfur Jacques Delors sem sagði þetta meðan hann var óbreyttur þingmaður á Evrópuþinginu. Hann varð síðan forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 1985. Þetta kemur m.a. fram í bókinni Evrópuvitund (bls. 13) sem út kom í fyrra.

Haraldur Hansson, 25.6.2009 kl. 12:46

13 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Takk fyrir upplýsingarnar

það getur verið gott að skoða hvað menn láta út úr sér meðan þeir eru að brölta upp valdastigan, áður en PR fólkið er búið að skóla þá til. 

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 25.6.2009 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband