Glæpastarfsemi og nauðsynleg bankaleynd

Bankaleynd á fullan rétt á sér og getur verið nauðsynleg fyrir fólk og fyrirtæki sem á í heiðarlegum bankaviðskiptum. En hún getur líka "þvælst fyrir" þegar menn fara ekki eftir leikreglum og afla þarf upplýsinga um fjármál þeirra.

Þegar ætluð sakamál eru til rannsóknar, hvort sem er skattrannsókn eða lögreglurannsókn, hafa til þess bær yfirvöld heimild til að fá þessar upplýsingar. Bankaleynd getur ekki komið í veg fyrir það. Viðskiptanefnd Alþingis hefur ekki slíka heimild og því var fullkomlega eðlilegt að bankastjórarnir þrír bæru fyrir sig bankaleynd þegar þeir voru kallaði á fund hennar um daginn vegna fjölmiðlakaupa Rauðsólar.

Þó að það sé líka eðlilegt að viðskiptanefnd vilji kanna mál sem þetta verður hún að lúta lögum.

Á fundi viðskiptanefndar Alþingis í dag bar Davíð Oddson fyrir sig bankaleynd og gat því ekki upplýst um vitneskju sína um ástæður þess að Bretar beittu hryðjuverklögum gegn íslenskum fyrirtækjum ytra. Er ekki rétt að huga aðeins að því hvað Davíð sagði, frekar en hver svaraði? Eða öllu heldur hvers vegna hann bar fyrir sig bankaleynd og þá um leið hvað svar hans þýðir.

Ef íslensk fyrirtæki og/eða íslenskir ríkisborgarar liggja undir grun um meiriháttar glæpastarfsemi er það háalvarlegt mál. Sér í lagi þegar það snertir alla landsmenn.

Þó skoðanir séu skiptar um Davíð Oddsson hljótum að ætla að hann fari að settum reglum þegar hann er kallaður formlega, sem embættismaður, fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Og að hann hafi ekki borið fyrir sig bankaleynd nema að vel athuguðu máli.

Úr því að bankaleynd átti við í þessu sambandi hjóta upplýsingarnar að varða fjármálagjörninga og/eða starfsemi fyrirtækja á því sviði. Sem væru þá Landsbankinn og Kaupþing. Þeir gjörningar hljóta að hafa vakið sterkan rökstuddan grun hjá Bretum um stórfelld lögbrot úr því þeir sáu ástæðu til að beita hryðjuverkalögum.

Þegar lögin um öryggi og varnir gegn hryðjuverkum voru sett í Bretlandi voru þau mjög umdeild meðal almennings. Margir óttuðust misbeitingu og aðrir töluðu um skert persónufrelsi. Þessi heimild er því vandmeðfarin og ólíklegt að stjórnvöld brenni sig á því að beita slíku neyðarúrræði nema brýn ástæða sé til. Það er ótrúverðugt að afgreiða þetta með því að Gordon Brown hafi notað lögin í pólitískum tilgangi til að setja undir fylgisleka.

Fyrir leikmann sem fylgist með málinu í gegnum fjölmiðla verður þetta tæpast skilið öðruvísi en svo að íslensku bankarnir séu sterklega grunaðir af Bretum um mjög alvarleg lögbrot; meiriháttar glæpastarfsemi.

Rannsóknarnefndin sem verið er að setja á laggirnar fær víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar. Heimildir sem viðskiptanefnd Alþingis hefur ekki. Meðal annars mun bankaleynd ekki eiga við gagnvart henni. Það hlýtur að verða hennar fyrsta verk að komast að því hvað gerðist í Bretlandi og leiddi til hryðjuverkalaga, vegna þess hve gífurleg áhrf þau höfðu á þróun mála. Áhrif sem allir Íslendingar finna fyrir og munu finna fyrir næstu árin.

Lærdómurinn sem draga á að svörum Davíðs er þessi:
Rannsóknarnefndin þarf að taka til starfa strax. Hún þarf að vinna hratt og vel og komast til botns í þessu stóra og grafalvarlega  máli. Og hún þarf að upplýsa almenning um sannleikann, undanbragðalaust, eins fljótt og mögulegt er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband